Viðskipti innlent

Meirihlutinn fellir grímuna en sprittstandarnir eru komnir til að vera

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kringlan í og eftir samkomubann.
Kringlan í og eftir samkomubann. Vísir/Vilhelm

Framkvæmdastjóri Kringlunnar segist áætla að um fjórðungur viðskiptavina kjósi enn að bera grímu þrátt fyrir að grímuskylda í verslunum hafi verið afnumin. Markaðsstjóri Smáralindar segir það hafa komið á óvart hvað fólk var fljótt að fella grímuna.

„Við höfum í raun og veru bara fylgt fyrirmælum um sóttvarnir; það er ekki grímuskylda af okkar hálfu í húsinu,“ segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdstjóri Kringlunnar. Hann segir verslunareigendum í sjálfsvald sett að ákveða sóttvarnir í sínum verslunum en í nokkrum þeirra má enn finna áminningu um sótthreinsun handa, tveggja metra regluna og grímunotkun.

Tinna Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Smáralindar, segir það hafa gerst mun hraðar en menn bjuggust við að fólk hætti að nota grímurnar. Hún ræddi við nokkra verslunareigendur í gær og þeir sögðu flesta viðskiptavini grímulausa.

Það á bæði við um verslanirnar og sameiginlega rýmið í húsinu, segir Tinna.

Spurð um grímunotkun starfsmanna segja bæði Tinna og Sigurjón allan gang á því hvort afgreiðslufólk velji að bera grímu þrátt fyrir afléttingarnar. Það sé þó algengara að yngra fólkið beri enn grímu og hyggist jafnvel gera það þar til það fær bólusetningu.

„Ég held að það sé bara komið til að vera,“ segir Tinna um sprittstandana sem hafa verið settir upp í verslanamiðstöðvunum. Þá verði þrif áfram skipulögð með sóttvarnir í huga.

Undir þetta tekur Sigurjón.

„Við fjárfestum í þessum græjum sem eru við helstu innganga og við munum klárlega halda áfram að bjóða viðskiptavinum upp á þetta,“ segir hann um sprittstandana. „Við erum náttúrulega ennþá að sinna auknum sóttvörnum, við höfum ekkert slakað í þeim efnum.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.