Körfubolti

Keflvíkingar láta allan ágóða af leiknum á morgun renna í Minningarsjóð Ölla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Örlygur Aron Sturluson var frábær í leik Njarðvíkur og Keflavíkur í desember 1999.
Örlygur Aron Sturluson var frábær í leik Njarðvíkur og Keflavíkur í desember 1999. mynd/stöð 2 sport

Njarðvíkingurinn Örlygur Aron Sturluson hefði haldið upp á fertugsafmælið sitt í dag ef hann hefði lifað en hann lést af slysförum fyrir rúmu 21 ári síðan. Nágrannarnir úr Keflavík minnast hans um helgina með rausnarlegum hætti.

Deildarmeistarar Keflavíkur fá Tindastól í heimsókn í Blue höllina í úrslitakeppni Domino's deildar karla í körfubolta á morgun laugardag en þetta er þriðji leikur liðanna í átta liða úrslitunum. Staðan er 2-0 fyrir Keflavík og Keflvíkingar komast í undanúrslitin með sigri.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur tilkynnti í dag að að allur ágóði af leik Keflavíkur og Tindastóls renni í Minningarsjóð Ölla.

Minningarsjóður Ölla var stofnaður til minningar um körfuknattleiksmanninn Örlyg Aron Sturluson sem var eitt mesta efni í sögu íslensks körfubolta. Minningarsjóður Ölla styrkir börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna.

„Börn í Keflavík hafa notið góðs af styrkjum úr Minningarsjóð Ölla og fyrir það erum við afar þakklát og viljum þakka fyrir,“ segir í tilkynningu á fésbókarsíðu körfuboltans í Keflavík.

Örlygur Aron lést af slysförum í ársbyrjun árið 2000 en hann var frábær þegar Njarðvíkingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn vorið 1998. Í leik tvö var hann meðal annars með 20 stig, 9 stoðsendingar og 6 stolna bolta þá aðeins sautján ára gamall. Örlygur var með 13,8 stig og 5,3 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu þrettán leikjum sínum á síðasta tímabili sínu með Njarðvík 1999-2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×