Umfjöllun og viðtöl: KA - FH 30-29 | KA-menn tryggðu sig inn í úr­slita­keppnina

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
KA er komið í úrslitakeppni Olís-deildar karla.
KA er komið í úrslitakeppni Olís-deildar karla. Vísir/Elín Björg

KA tryggði sæti sitt í úrslitakeppni Olís-deildar karla með sigri á FH í kvöld. Er þetta í fyrsta skipti í 16 ár sem KA kemst þangað. Lokatölur 30-29 á Akureyri í kvöld.

Fyrri hálfleikur fór vel af stað í KA heimilinu í dag en var kaflaskiptur. Liðin skiptust á að skora í upphafi og var nánast jafnt á öllum tölum. KA þó einu skrefi á undan, mest munaði þremur mörkum á liðunum um miðbik hálfleiksins. 

FH var ekki á því að láta KA eftir forystuna og eftir góðan kafla með Einar Rafn fremstan í flokki náðu þeir yfirhöndinni á tuttugustu mínútu, staðan þá 9-12. KA náði þó að saxa á það forskot og staðan þegar liðin gengu til búningsklefa 12-13 fyrir FH.

Seinni hálfleikur var mikill skemmtun og reyndist eins og fyrri hálfleikur kaflaskiptur. FH byrjaði seinni hálfleikinn betur og á 40 mínútu leiddu þeir með þremur mörkum enn og aftur. KA menn létu ekki til leiðast og náðu að jafna 20-20 þar sem Árni Bragi skoraði þrjú mörk í röð og náði liðið í kjölfarið forystunni. 

Það var mikill spenna í leiknum síðasta korterið og eins og áður skiptust liðin á að leiða leikinn. Úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu mínútum leiksins. 

KA var þá tveimur mörkum yfir. FH-ingar náðu ekki að brúa það bil og KA menn sigruðu að lokum með einu marki 30-29 KA er því á leið í úrslitakeppnina í fyrsta skipti í 16 ár ásamt það að klífa upp töfluna. Liðið er nú í fjórða sæti deildarinnar.

Af hverju vann KA?

Frábær liðsheild og barátta skóp þetta hjá KA. Þeir gáfust aldrei upp þrátt fyrir að lenda nokkrum sinnum þremur mörkum undir. Þetta gat lent hvoru meginn sem var en viljinn í KA var að endingu meiri. Klaufalegt á móti hjá FH að gera sér ekki meira mat úr því þegar þeir náðu í ágætis forystu að halda henni, KA komst alltaf aftur inn í leikinn.

Hverjar stóðu upp úr?

Árni Bragi var frábær hjá KA og dróg vagninn á lykilmómentum í leiknum. Hann skoraði 11 mörk fyrir KA og skóp helling fyrir liðsfélagana. Þá náði KA að dreifa álaginu vel hjá sínum leikmönnum og margir sem lögðu hönd á plóg. Ragnar Snær var virkilega góður í vörn heimamanna og lítið sem fór í gegnum hann.

Einar Rafn átti góðan leik í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Einar Rafn var magnaður hjá FH. Hann skoraði níu mörk fyrir liðið og átti mjög góðan leik. Birgir Már var einnig drjúgur fyrir FH.

Hvað gekk illa?

FH-ingum gekk illa að slíta sig frá KA þegar þeir náðu góðri forystu og það varð þeim að falli að endingu í leiknum. Þá náðu markmenn FH sér ekki á strik, Birkir Fannar varði fjögur skot og Júlíus Freyr eitt skot.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga útileik í næst síðustu umferðinni. KA á leik á móti Val mánudaginn 24. maí og FH mætir föllnum ÍR-ingum sama dag.

Hefði gjarnan vilja fá eitthvað út úr þessu

Sigursteinn hefði viljað allavega stig í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

„Ég er verulega svekktur, því að mér fannst liðin mitt berjast vel. Þeir lögðu sig vel fram og þess vegna er ég mjög svekktur að taka ekkert út úr þessum leik,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, eftir sárt tap á móti KA í KA heimilinu í dag.

„Það er alltaf hægt að týna til einhver smáatriði en svona heilt yfir þá náum við ekki að loka á hornabraga. Fullt af smáatriðum hér og þar sem hefði mátt fara betur en að endingu er ég ánægður með hvernig liðið lagði sig fram og þess vegna hefði ég gjarnan vilja fá eitthvað út úr þessu.“

FH á næsta leik á móti ÍR á útivelli.

„Það er bara næsti leikur á mánudaginn á móti ÍR. Tveir tapleikir í röð sem að við sættum okkur ekki við í FH og þar að leiðandi mætum við grimmir í næsta leik og ætlum okkur klárlega tvö stig.“

„Það þarf að nálgast alla leiki af virðingu. Við munum mæta af krafti á móti ÍR.“

Lítið er eftir á Olís deildinni. FH er í góðri stöðu í öðru sæti deildarinnar.

„Við ætlum að leggja okkur alla fram við að komast sem lengst og ætlum að halda okkur við annað sætið. Það er alltaf markmið FH að keppa um alla titla og það verður enginn breyting á því núna.“

Tökum þessi aukaskref sem þarf í lokin

Sverre og Jónatan Magnússon fara yfir málin.Vísir/Elín Borg

„Ég er rosalega stoltur af liðinu. Þetta var frábær leikur og í raun framhald af síðasta leik. Það er ekki annað hægt en að brosa og vera glaður,“ sagði Sverre Jakobsson, þjálfari KA, eftir frábæran sigur á móti FH á heimavelli í dag.

„Það eru jákvæð merki og ákveðin karakter í okkar liði. Við fáum líka orku frá áhorfendunum hérna og stemmningunni á okkar heimavelli. Húsið gefur mikið. Þannig þetta eru bara mjög jákvæð merki.“

KA lenti nokkrum sinnum þremur mörkum undir en komu alltaf til baka.

„Það að koma til baka og brotna ekki í ákveðnu mótmæli sem við sköpum í raun sjálfir er frábært. Við náum í þessu jöfnu leikjum að taka þetta aukaskref sem þarf í lokinn. Menn eru tilbúnir til að taka af skarið og halda áfram. Þetta er liðsheildin og karakter einkenni.“

Árni Bragi var frábær fyrir KA í dag en hann er á leið frá félaginu eftir tímabilið.

„Hann er stoltur hjá okkur núna í gula og bláa búningnum. Við erum ánægðir með að vera með hann í okkar röðum. Hann er búinn að vera frábær í vetur og þetta er bara lykilmaður. Við höfum miklar væntingar til hans og hann stendur alltaf undir þeim. Það er ekki hægt að hrósa honum nægjanlega mikið. Ef ég byrja núna þá þarf ég svolítið langan tíma í það. Frábær leikmaður innan sem utan vallar.“

KA er komið í úrslitakeppnina í fyrsta skipti í 16 ár.

„Það er bara stórkostlega. Þetta er bara hluti af okkar vegferð. Við hlökkum til að takast á við næstu áskorun og ná næstu markmiðum. Það eru tveir leikir eftir og við viljum bara sjá hvar við endum þá en margur vill meira. Við viljum bara vinna og við höfum alltaf trú á okkur í hverjum leik.“

Áki Egilsnes meiddist á æfingu í gær og var ekki með í dag. Þá er Ólafur Gústafson búinn að vera meiddur.

„Þeir eru báðir spurningarmerki. Best að segja sem minnst en við vonum að þeir geti eitthvað spilað með okkur. Við erum bjartsýnari með Áka heldur en Ólaf.“


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira