Skoðun

Áslaug Arna, hvað er glæpur?

Þorgerður M Þorbjarnardóttir skrifar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði á Alþingi að umsvif skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi væru áhyggjuefni og að mati ríkislögreglustjóra næmu skattaundanskot um 4% af vergri þjóðarframleiðslu.

Til að takast á við þennan vanda einblína stjórnvöld á innflytjendur og herða landamæraeftirlit. Í stað þess að beita sér af krafti gegn peningaþvætti og skattaundanskotum og beina sviðsljósinu þangað er einblínt á glæpagengi. Orðræðan er til þess fallin að vekja óhug hjá almenningi og til að réttlæta hertar aðgerðir á landamærunum.

Ég gæti nýtt tækifærið hér og bent á alls kyns aðferðir til að minnka skaðann, s.s. afglæpavæðingu fíkniefna og fleira til að hjálpa þeim sem leiðast inn á braut glæpa og annarar áhættuhegðunar vegna áfalla og félagsstöðu. Hins vegar ætla ég að beina athyglinni að hópi fólks sem verður fyrir barðinu ómannúðlegri meðferð hér á landi, af hálfu hins opinbera.

Íslensk stjórnvöld brjóta ítrekað á viðkvæmum hópi fólks, flóttamönnum. Flóttamenn á Íslandi eru að flýja ýmsar og oft mjög slæmar aðstæður. Þeir koma hingað til lands í von um betra líf. Til þess að komast hingað þurfa flestir að fara í gegnum Grikkland. Til þess að forðast það að vera látin sækja um hæli í Grikklandi gegn vilja sínum grípa sumir til þess ráðs að kaupa fölsuð skilríki eða fara huldu höfði til að komast fram hjá landamæraeftirliti. Það er einmitt þetta fólk sem í neyð sinni borga háar upphæðir til skipulagðrar glæpastarfsemi til að komast hingað til lands og fá hér hæli þar sem þau eru ekki með hæli í Grikklandi. Aðrir flóttamenn eru látnir skanna vegabréf sín í Grikklandi og sækja þar með sjálfkrafa um hæli þar í landi. Í stað þess að hjálpa þessum hópi vísum við þeim aftur til Grikklands með vísun í Dyflinnarreglugerðina sem ráðherra er þó ekki skylt að fara eftir. Það er nefnilega ekkert mál fyrir þá sem standa að skipulagðri glæpastarfsemi að tryggja sér leið fram hjá þessum ferlum. Því er það blásaklaust fólk sem verður fyrir barðinu á þessum aðgerðum stjórnvalda.

Ég neita að sitja þegjandi og hljóðalaust undir orðræðu ráðherra sem réttlætir þessar aðgerðir. Hræsnin er þrúgandi! Á bak við hvert tilfelli er manneskja sem verið er að senda í ómannúðlegar aðstæður. Í mínum huga er það mjög alvarlegur glæpur og þetta fólk er ekki fólk sem við þurfum að óttast í okkar samfélagi.

Höfundur er aktivisti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×