Körfubolti

Sá þrefalt en skaut Lakers í úrslitakeppnina

Sindri Sverrisson skrifar
Draymond Green reynir að verjast LeBron James en brýtur á honum.
Draymond Green reynir að verjast LeBron James en brýtur á honum. AP/Mark J. Terrill

LeBron James harkaði af sér ökklameiðsli og kom meisturum LA Lakers í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Lakers unnu Golden State Warriors 103-100 í umspilsleik.

James fékk fingur Draymonds Green í auga seint í fjórða leikhluta og það hafði sín áhrif á hann þó að honum tækist að skora sigurkörfu leiksins, með þriggja stiga skoti af löngu færi þegar enn voru 58 sekúndur eftir.

„Eftir að ég fékk fingurinn í augað þá sá ég þrjá körfuboltahringi og reyndi að skjóta í þennan sem var í miðjunni. Það var mildi að mér skildi takast að skora,“ sagði James sem skoraði 22 stig, tók 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

„Ég hef fengið svona pot í augað áður. Það verður aumt í kvöld og á morgun en við náðum dýrmætum sigri,“ sagði James.

Golden State eða Memphis í úrslitakeppnina

Lakers mæta því Phoenix Suns í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en Phoenix endaði í öðru sæti vesturdeildarinnar.

Stephen Curry og félagar í Golden State eiga enn möguleika á að fara í úrslitakeppnina en þurfa þá að vinna Memphis Grizzlies í úrslitaleik annað kvöld. Sigurliðið mætir Utah Jazz í úrslitakeppninni. Curry skoraði 37 stig í leiknum gegn Lakers og tók sjö fráköst.

Memphis sendi San Antonio Spurs í sumarfrí með 100-96 sigri í nótt. „Þetta var gott en við erum ekki komnir í úrslitakeppnina. Við erum bara komnir á næstu blaðsíðu,“ sagði Ja Morant, leikmaður Memphis.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×