Viðskipti innlent

Hopp vill leigja út bíla

Snorri Másson skrifar
Sæ­unn Ósk Unn­steins­dótt­ir, framkvæmdastjóri Hopp í Reykjavík, telur eðlilegt að Hopp sé í ráðandi stöðu á rafskútumarkaðnum.
Sæ­unn Ósk Unn­steins­dótt­ir, framkvæmdastjóri Hopp í Reykjavík, telur eðlilegt að Hopp sé í ráðandi stöðu á rafskútumarkaðnum. Vísir/Vilhelm

Hopp endurnýjaði allan flota sinn á höfuðborgarsvæðinu á dögunum með nýjustu kynslóð af rafskútum og undirstrikaði þar með yfirburði sína á íslenska rafskútumarkaðnum. Flotinn stækkaði um leið úr 300 í 1.100 hjól.

Ólíkt öðrum fyrirtækjum sem mörg þurfa að byggja sínar rekstraráætlanir á tilgátum og spám, er Hopp í þeirri ágætu stöðu að geta lagað framboð sitt mjög nákvæmlega að eftirspurninni.

„Appið okkar er það tæknivætt að við fylgjumst með hverju skipti sem það er opnað og greinum þar af leiðandi eftirspurn og vöntun á rafskútum. Þess vegna fórum við í þessar aðgerðir og það var gert algerlega út frá eftirspurn,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp í Reykjavík.

Rafskúturáðstefna í Kópavogi. Margir skilja illa við rafskúturnar og þar segir Sæunn mikilvægt að notendur séu samvinnuþýðir. Það megi ekki bara gufa upp af hjólinu.Vísir/Vilhelm

Hopp er orðið mjög mikilvægur liður í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu, og er nú einnig komið inn í Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Af framkvæmdastjóranum að dæma er fyrirtækið rétt að leggja af stað.

Hraðari ökutæki í deilihagkerfinu

Sæunn Ósk telur sjálfsagt að Hopp, sem íslenskt fyrirtæki frá grunni, sé með ráðandi stöðu á markaði. Samkeppnisaðilarnir eru með erlendan hugbúnað, eins og Wind. Þeim mun sveigjanlegra er Hopp til að takast á við breytingar, að mati Sæunnar.

Framtíðarsýnin er ekki smá í sniðum. „Hún er að fara út í hraðari ökutæki og vera enn virkari í deilihagkerfinu, allt upp í vespur, rafhjól og bíla,“ segir Sæunn.

„Við erum komin með hugbúnaðinn fyrir deiliþjónustu og við ætlum algerlega ekki að láta okkur vanta í þá þróun,“ segir framkvæmdastjórinn.

Spurð nánar út í sókn Hopps inn á markað stærri ökutækja, segir Sæunn: „Við erum með margt í pípunum. Hopp er komið til að vera.“

Wind vs. Hopp, en hægra megin á myndinni eru skúturnar sem fóru í Suðurnesjabæ. Vísir/Kolbeinn Tumi

Gömlu hjólunum skutlað suður með sjó

Endurnýjun rafskútuflota Hopps hefur leitt til þess hjá mörgum íbúum höfuðborgarsvæðisins að Hopp er aftur orðinn álitlegri kostur en Wind, enda hjólin kraftmeiri.

Gömlu hjólin hjá Hopp, sem voru um 300 á höfuðborgarsvæðinu, voru færð á tilraunasvæði Hopp, til dæmis í Reykjanesbæ.

„Skúturnar áttu mikið eftir og voru vel nothæfar. Þetta er gert til að prófa hver nýtingin er og svo vitum við ekki hver næstu skref eru á þessu svæði, líklega að uppfæra flotann sinn. Sömuleiðis snýst þetta um að nýta og gera upp það sem er til, frekar en að kaupa alltaf bara það sem er nýtt og glansandi,“ segir Sæunn.

Rekstraraðilar Hopp hérlendis og erlendis annast starfsemina í gegnum sérleyfi, eins og til dæmis á Hellu, Akureyri, Egilsstöðum og Vestmannaeyjum. Enn er ekkert Hopp í Breiðholti, Árbæ eða Grafarvogi, en það er í sífelldri endurskoðun.

Alls konar rafskútur eru í umferð í Reykjavík, margar í einkaeigu. Um 20.000 voru fluttar inn á síðasta ári.Vísir/Vilhelm

Milljón kílómetrar á Hoppi

Það hefur orðið bókstafleg sprenging í innflutningi á rafskútum. Um 20.000 tæki voru flutt inn árið 2020, samanborið við 5.400 árið áður og 3.600 árið þar á undan, samanber umfjöllun mbl.is.

Hopp er á meðal stærstu innflytjenda þessara tækja, eins og gefur að skilja.

„Þetta er búið að vera rosalega spennandi vor. Við þurfum líka að hafa í huga, að þessir milljón kílómetrar sem við höfum farið, maður getur rétt ímyndað sér hvað það er búið að taka marga bíla af götunum. Þetta er svo mikið,“ segir Sæunn.

Hún vill að Hopp sé fengið að borðinu í ákvörðunum borgarinnar um framtíðarráðstafanir í samgöngum, en á slíkum vettvangi er Sæunn sjálf reynslumikil, enda fyrrverandi starfsmaður borgarinnar, nánar tiltekið verkefnastjóri miðborgarmála.

Verst fyrir leigubílana

Áherslan hjá Hopp er að sögn Sæunnar alltaf minni mengun og því skiptir líka máli að nýta eldri skútur í ný verkefni. Nefna má í því samhengi að rafbílar eru notaðir við umsjón skútanna.

Ljóst má telja að aðrir samgöngumátar, ekki aðeins einkabíllinn, heldur einnig Strætó og leigubílar, eiga undir högg að sækja í samkeppninni.

Sæunn segir að notendur Strætó séu einnig að nota Hopp. „Ég sé bara samlegðaráhrif í samgöngunum. Við getum rakið hvar appið okkar er opnað og það er nálægt strætóstöðvunum,“ segir Sæunn.

„Ég held að leigubílunum hafi blætt töluvert meira á okkur, þ.e.a.s. þegar maður var að hoppa inn í leigubíl frá Hlemm og niður á Lækjartorg. Nú er sú leið farin með Hoppi,“ segir Sæunn.


Tengdar fréttir

Einnig þurfi að horfa til hve „skelfilegur skaðvaldur“ einkabílinn sé

Stór hluti þeirra sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala síðasta sumar vegna slysa á rafhlaupahjólum voru undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Könnun sýnir að næst algengast sé að slík farartæki séu notuð til að komast til og frá skemmtistöðum, börum og veitingastöðum.

Raf­hlaupa­hjól í um­ferð

Nú er vor í lofti og hjól af ýmsu tagi algengari í umferðinni. Rafhlaupahjól hafa á skömmum tíma náð miklum vinsældum hér á landi líkt og annars staðar í heiminum. Víða má sjá vegfarendur á þeysireið um stíga borgar og bæja og margir hafa tileinkað sér þennan einfalda og umhverfisvæna fararmáta.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×