Lífið

Uppi­standi af­lýst eftir þrjá og hálfan tíma

Snorri Másson skrifar
Stjarnan T.J. Miller átti að koma fram 7. maí 2022 í Háskólabíó. Hann gerir það ekki.
Stjarnan T.J. Miller átti að koma fram 7. maí 2022 í Háskólabíó. Hann gerir það ekki. Sena

Áform Senu um að bjóða upp á uppistand með bandaríska leikaranum T.J. Miller urðu ekki öldungis langlíf. Miðarnir voru settir í sölu í morgun í um þrjár og hálfa klukkustund. Svo hætti Sena við viðburðinn, að líkindum vegna fortíðar uppistandarans.

Miller var fyrir nokkrum árum sakaður um kynferðisofbeldi.

„Við unnum okkar heimavinnu ekki nógu vel og biðjumst afsökunar á því,“ segir í yfirlýsingu frá Senu Live. 

Sú yfirlýsing barst klukkan 13.37 en tilkynning um viðburðinn sjálfan barst klukkan 10.06 í morgun.

Í millitíðinni klóruðu sér nokkrir Íslendingar í kollinum yfir auglýsingunni á Twitter, þar sem bent var á fortíð skemmtikraftsins. „Kvöldstund með kynferðisafbrotamanni“ var tillaga sem þar var slengt fram í gráu gamni.

Það þarf ekki að fletta langt eftir upplýsingum um hinn bandaríska Todd Joseph Miller á netinu til þess að upp komi leitarniðurstöður um að hann hafi verið sakaður um kynferðislegt misferli. Ásakanirnar koma frá tveimur konum og önnur þeirra mun hafa verið kærasta hans í háskóla.

T.J. Miller hefur vísað öllum ásökunum á bug og sagt þá sem sakaði hann árið 2017 um að hafa ráðist á sig í kynlífi um að vera eltihrellir hans til margra ára. Árið 2018 var Miller síðan ákærður fyrir að tilkynna um sprengju um borð í lest, sem átti sér enga stoð í raunveruleikanum.

„Stjarnan úr Deadpool, Ready Player One, Silicon Valley, Get Him To The Greek, The Emoji Movie, Big Hero 6 og fjölmörgum öðrum þáttum og sýningum á HBO og Comedy Central kemur til Íslands í fyrsta sinn með nýja uppistandssýningu,“ sagði í upphaflegri tilkynningu Senu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.