Ársverðbólga mælist því 4,6% í apríl og hækkar um 0,3 prósentustig frá því í mars. Hefur hún ekki verið hærri frá því í febrúar 2013 eða í rúm átta ár. Þá mældist ársverðbólga 4,8%.
Reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,5% sem hafði 0,4% áhrif á vísitöluna. Matur og drykkjarvörur hækkuðu um 1,1% og höfðu 0,16% áhrif á vísitöluna.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum á vef Hagstofu Íslands. Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í apríl 2021 hækkar um 0,71% í apríl frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 0,38% frá mars 2021.
Varaði við vaxtahækkunum lækki verðbólgan ekki
Seðlabanki Íslands varaði við því fyrr í apríl að mögulega þyrfti að grípa til vaxtahækkana ef verðbólgan færi ekki að lækka. Meginvextir bankans eru nú í sögulegu lágmarki í 0,75 prósentum.
„Verðbólgan sem verið hefur núna stafar að miklu leyti af veikingu gengisins á síðasta ári. Núna höfum við séð gengisstyrkingu og ég bara býst við því að hærra gengi leiði til þess að verðlag í verslunum lækki og við náum verðbólgunni niður aftur. Ef það gerist ekki verðum við að grípa til aðgerða,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í samtali við fréttastofu þann 14. apríl síðastliðinn.
Fréttin hefur verið uppfærð.