Körfubolti

Búddastellingin hans Baldurs stal senunni í Domino´s Körfuboltakvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Baldur Ragnarsson í búddastellingunni í leikhléi Tindastóls á úrslitastundu í leiknum á móti gömlu lærisveinum Baldurs í Þór frá Þorlákshöfn.
Baldur Ragnarsson í búddastellingunni í leikhléi Tindastóls á úrslitastundu í leiknum á móti gömlu lærisveinum Baldurs í Þór frá Þorlákshöfn. Stöð 2 Sport

Baldur Þór Ragnarsson er búinn að stýra Tindastólsliðinu til sigurs í fyrstu tveimur leikjunum eftir kórónuveirustopp. Það var þó enn á ný leikhlé hans sem var mikið í umræðunni í uppgjöri Domino´s Körfuboltakvölds í gærkvöldi.

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var í viðtali í Domino´s Körfuboltakvöldi eftir sigur hans mann í Njarðvík í gær. Viðar klikkar sjaldnast í viðtölum og svo var heldur ekki í gær. Það var sérstaklega skot hans í enda viðtalsins sem vakti hlátur í settinu.

„Kannski að fá Benna Gum til að setjast í búddastellinguna hans Baldurs þá fer ég að horfa á þetta á eftir,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson léttur í lok viðtalsins.

„Ég ætlaði ekki að segja neitt í þessu viðtali af því að ég vissi að þá kæmi eitthvað. Ég sagði ekki neitt en samt þurfti hann að koma mér að hérna,“ sagði Benedikt Guðmundsson.

Umrædd búddastelling Baldurs var síðan tekin fyrir seinna í Domino´s Körfuboltakvöldi.

Klippa: Dominos Körfuboltakvöld: Búddastelling Baldurs

„Viðar Örn kom inn á þetta í byrjun í þessarar útsendingar. Það er þessi stelling hans Baldurs (Ragnarssonar, þjálfara Tindastóls) í stöðunni 88-87. Þessi jógastelling fyrir framan liðið sitt. Hafið þið séð þjálfara sitja svona áður,“ spurði Kjartan Atli Kjartansson sérfræðinga sína.

„Kannski hefur Sævar séð þetta en ég hef ekki séð þetta,“ sagði Benedikt Guðmundsson en Sævar hafði bara séð slíkt í jógamyndböndum.

„Hvað er að manninum,“ spurði Sævar Sævarsson hlæjandi.

„Það er samt svo gaman þegar einhver er svona öðruvísi. Það var allt í einu eins og það væri komin bein útsending úr Frístund. Baldur er að koma með öðruvísi nálgun á þetta. Hann er með búddastellinguna og allir eiga að snerta spjaldið. Það er bara hending ef hann er í skóm og sokkum þegar hann er að þjálfa. Ég hef gaman af einhverju svona öðruvísi,“ sagði Benedikt.

„Maður lifir fyrir að fylgjast með einhverju sem er skrýtið og þetta er svo sannarlega mjög skrýtið,“ sagði Sævar.

Það má sjá umfjöllunina og búddastellinguna hans Baldurs í myndbandinu hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.