Viðskipti innlent

Domino's svarar og sendir Spaðanum sneið

Snorri Másson skrifar
Domino's í Kringlunni og Spaðinn í Kópavogi.
Domino's í Kringlunni og Spaðinn í Kópavogi. Vísir

Orðsendingar hafa gengið á víxl á milli íslenskra flatbökurisa í dag. Lotan hófst með yfirlýsingum Þórarins Ævarssonar, stofnanda Spaðans, um að hann hefði í hyggju að setja Domino’s á hausinn á fimm árum.

Þessi áform reifaði Þórarinn í viðtali í fréttaþætti Morgunblaðsins og þegar hann talaði um misheppnaða tilraun sína til að kaupa Domino's: „Í staðinn fyrir að taka fimm ár í að koma Domino’s á hausinn, sem ég mun gera, hugsaði ég með mér, frekar gleypi ég þá og breyti markaðnum.“

Ummæli Þórarins hafa vakið nokkra athygli og þar hlaut að koma að Domino’s bæri hönd fyrir höfuð sér. Fyrirtækið skrifaði rétt í þessu færslu á Facebook, þar sem það sagðist vera „stoltur stuðningsaðili allra sem elska Domino’s í spað.“

Nýleg auglýsingaherferð fyrirtækisins gengur út á að það sé stoltur stuðningsaðili alls sem hreyfist. Þetta er nýjasta útspilið í henni og liggur beinast við að skilja það sem glóðvolga sneið til hins vígreifa Þórarins, sem var reyndar starfsmaður Domino’s á Íslandi í áraraðir.

Þórarinn leiddi hóp fjárfesta í tilraun til að kaupa Domino’s-keðjuna eins og hún leggur sig hér á landi þegar hún var til sölu á dögunum. Honum varð ekki kápan úr því klæðinu, þannig að nú tekur hann hinn valkostinn, sem er að keyra það í þrot.


Tengdar fréttir

Birgir Bieltvedt kaupir Domino‘s á ný

Gengið hefur verið frá sölu Domino’s á Íslandi til hóps fjárfesta á Íslandi sem Birgir Bieltvedt fer fyrir. Að því er fram kemur í fréttatilkynningu samanstendur hópurinn af Eyju fjárfestingarfélagi, Kristni ehf., Sjávarsýn ehf. og Lýsi ehf.

Þórarinn Ævarsson vill kaupa Domino‘s

Fjárfestahópur sem Þórarinn Ævarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi og stofnandi pizzustaðarins Spaðans, fer fyrir er einn af þremur fjárfestahópum sem vilja kaupa rekstur Domino‘s á Íslandi af Domino‘s Pizza Group í Bretlandi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×