Viðskipti innlent

Þórarinn Ævarsson vill kaupa Domino‘s

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórarinn Ævarsson er einn þeirra sem vill kaupa Domino's á Íslandi.
Þórarinn Ævarsson er einn þeirra sem vill kaupa Domino's á Íslandi. Vísir/Gulli

Fjárfestahópur sem Þórarinn Ævarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi og stofnandi pizzustaðarins Spaðans, fer fyrir er einn af þremur fjárfestahópum sem vilja kaupa rekstur Domino‘s á Íslandi af Domino‘s Pizza Group í Bretlandi.

Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í dag. Samkvæmt heimildum blaðsins eru viðskiptafélagar Þórarins í Spaðanaum þeir Jón Pálmason, annar eigenda IKEA á Íslandi, og Guðni Rafn Eiríksson, fjárfestir og eigandi Skakkaturns, umboðsaðila Apple á Íslandi.

Framtakssjóðurinn Alfa hefur einnig skilað inn tilboði í Domino‘s en áður hafði verið greint frá því fjárfestirinn Birgir Þór Bieltvedt hefði gert kauptilboð í reksturinn. Birgir Örn Birgisson, núverandi framkvæmdastjóri Domino‘s á Íslandi og Skeljungur standa með honum að tilboðinu.

Stjórn Domino‘s í Bretlandi hefur ekki enn tekið ákvörðun um að ganga til einkaviðræðna á grundvelli skuldbindandi tilboðs, með fyrirvara um áreiðanleikakönnun, að því er heimildir Markaðarins herma.

Birgir Bieltvedt hefur tvívegis áður komið að rekstri Domino‘s hér á landi og er í dag meðal eigenda pizzukeðjunnar í Noregi. Hann kom að opnun staðarins á Íslandi árið 1993 en seldi hlut sinn í aðdraganda hrunsins. 2011 keypti hann reksturinn aftur og seldi hann svo 2016 og 2017 með margra milljarða króna hagnaði.

Þá kom Þórarinn Ævarsson einnig að opnun Domino‘s 1993 og hann stýrði fyrirtækinu frá 2000 til 2005. Eftir að hann lét af störfum sem framkvæmdastjóri IKEA opnaði hann pizzastaðinn Spaðann sem er með útibú í Kópavogi og Hafnarfirði.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.