Tilkynnt var um kaup Kviku á Aur í lok mars. Aur var stofnað 2015 sem einföld leið til að millifæra peninga í snjallsíma og hefur síðan byggt upp stóran hóp viðskiptavina. Notendur eru um 90.000 og hartnær fjórði hver landsmaður er virkur notandi appsins, segir í tilkynningu.
Kvika sameinaðist TM og Lykli með ákvörðun í lok síðasta árs. Þar með er markaðsvirðið í kringum 100 milljarða, sem gerir þetta nýja sameinaða félag að þriðja verðmætasta félagi í Kauphöllinni á eftir Marel og Arion.
„Kvika er í einstakri stöðu. Aur er með mikla markaðshlutdeild og býr yfir áhugaverðum tæknilausnum. Með þessum kaupum á Aur eykst enn frekar geta félagsins til þess að keppa við önnur fjármálafyrirtæki. Það eru spennandi tímar framundan,“ var haft eftir Marinó Erni Tryggvasyni, forstjóra Kviku, í tilkynningu.