Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins. SaltPay greindi frá því á mánudag að ákveðið hafi verið að fækka starfsfólki umtalsvert hér á landi en ekki fékkst gefinn upp nákvæmur fjöldi.
Að sögn fyrirtækisins höfðu breytingarnar aðallega áhrif á starfsfólk sem starfaði við að þróa og viðhalda eldra greiðslukerfi Borgunar en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var deildarstjóra sömuleiðis sagt upp auk fólks í lögfræðiteymi og áhættustýringu.
SaltPay lauk kaupum sínum á 96% hlut í Borgun í júlí í fyrra. Síðan þá hafa minnst 107 misst vinnuna hjá fyrirtækinu en SaltPay segist einnig haf hafa ráðið tugi starfsmanna síðastliðið ár.
Fram kom í tilkynningu á þriðjudag að frá kaupum alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækisins á Borgun hafi verið unnið að því að skipta út greiðslukerfi Borgunar.
„Sú vinna hefur staðið yfir og er komin á það stig að ekki verður þörf fyrir allt það starfsfólk sem sinnt hefur gamla kerfinu. Af þessu leiðir að fækkun verður á hugbúnaðarsviði, auk þess sem aukin sjálfvirkni og bætt tækni hefur áhrif til fækkunar á öðrum sviðum.“