Viðskipti innlent

Nýr framkvæmdastjóri hjá Póstinum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gunnar Þór Tómasson starfaði síðast hjá EY.
Gunnar Þór Tómasson starfaði síðast hjá EY. Aðsend

Gunnar Þór Tómasson hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra fjármálasviðs Póstsins en hann kemur frá fyrirtækinu EY og hefur þegar hafið störf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum.

Gunnar Þór hefur rúmlega 13 ára reynslu og þekkingu á sviði reikningshalds, uppgjöra, ársreikningagerðar og endurskoðunar. Hann er löggiltur endurskoðandi og hlaut löggildingu til endurskoðunarstarfa árið 2015 og M.Acc. gráðu frá Háskóla Íslands árið 2010.

„Pósturinn hefur verið á farsællri vegferð síðastliðna mánuði með það fyrir augum að auka þjónustu við viðskiptavini sína með aukinni tæknivæðingu. Starfsumhverfi Póstsins er að nútímavæðast hratt og framtíðin er björt. Hér eru allir að róa í sömu átt og mikill samhugur í starfsmönnum. Ég hlakka mikið til að takast á við þau verkefni sem eru framundan og að aðstoða Póstinn við að ná settum markmiðum,“ segir Gunnar Þór Tómasson

„Við erum mjög ánægð að fá eins öflugan einstakling og Gunnar til liðs við okkur hér hjá Póstinum, við fundum strax að hann væri réttur aðili í starfið og vitum að hann á eftir að reynast Póstinum vel í komandi verkefnum. Starf framkvæmdarstjóra fjármálasviðs er fjölbreytt og í mörg horn að líta, það verður gaman að sjá Gunnar setja sinn svip á starfið sem og félagið og við hlökkum mikið til að vinna með honum,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×