Viðskipti innlent

Býður sig aftur fram í formannsstólinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Eyjólfur Árni Rafnsson á aðalfundi SA árið 2019.
Eyjólfur Árni Rafnsson á aðalfundi SA árið 2019. Vísir/Vilhelm

Eyjólfur Árni Rafnsson gefur áfram kost á sér sem formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) en hann tók við formannsstólnum árið 2017.

Eyjólfur Árni hefur áratugareynslu af stjórnunarstörfum í íslensku atvinnulífi en frá árinu 2016 hefur hann sinnt ýmsum ráðgjafa- og stjórnunarstörfum. Þá hefur hann setið í stjórn SA frá árinu 2014 og í framkvæmdastjórn SA frá 2016.

Frá þessu er greint á vef samtakanna en Eyjólfur segir það nú vera stærstu áskorun yfirvalda og aðila vinnumarkaðar næstu misserin að draga úr atvinnuleysi.

„Þessi risavöxnu verkefni verða stærstu viðfangsefni þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við eftir kosningar síðar á árinu. Nú er mikilvægt að allir vinni samstíga að því sameiginlega verkefni að skapa störf hjá fyrirtækjum í atvinnulífinu. Leiðin út úr kreppunni er ekki sú að fjölga opinberum störfum. Þvert á móti eru stöndug fyrirtæki forsenda þess að skapa verðmæt störf. Með því að auka súrefni til atvinnulífsins bætum við lífskjör fólks í landinu.”

Eyjólfur segir að viðburðaríkt og sögulegt starfsár sé að baki hjá Samtökum atvinnulífsins sem hafi óumflýjanlega litast af heimsfaraldrinum. Meðal forgangsverkefna hafi verið að vinna tillögur upp í hendur stjórnvalda, gæta hagsmuna aðildarfyrirtækja og miðla upplýsingum til félagsmanna.

Rafræn kosning formanns meðal aðildarfyrirtækja SA fyrir starfsárið 2021 til 2022 hefst þann 14. apríl næstkomandi. Tilkynnt verður um kjörið á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins þann 12. maí.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×