Viðskipti erlent

Auð­ævi Kim Kar­dashian nú metin á milljarð dala

Atli Ísleifsson skrifar
Kim Kardashian á verðlaunahátíð árið 2019.
Kim Kardashian á verðlaunahátíð árið 2019. EPA

Bandaríska raunveruleikastjarnan Kim Kardashian West hefur nú bæst í hóp auðmanna, auðævi hverra eru metin á rúmlega milljarð Bandaríkjadala. Forbes greindi frá því í gær að Kardashian hafi nú bæst á lista blaðsins yfir milljarðamæringa heimsins. Á listanum eru nú 2.755 einstaklingar.

Kardashian hefur auðgast mikið þökk sé sölu á snyrtuvörum og fatnaði, auk þess að hafa tekjur af sjónvarpsþáttum, styrktarsamningum og fjárfestingum.

Jeff Bezos, stofnandi Amazon, skipar efsta sæti listans, en auðævi hans eru metin á 177 milljarða Bandaríkjadala.

BBC segir frá því að auk Kardashian hafi Whitney Wolfe Herd, stofnandi Bumble-stefnumótaforritsins, bæst á listann, sem og kvikmyndagerðarmaðurinn Tyler Perry og Miriam Adelson, ekkja spilavítaeigandans Sheldon Adelson sem lést í byrjun árs. 

Ríkasta fólk í heimi, Forbes 2021

  • 1. Jeff Bezos, Amazon, Bandaríkin, 177 milljarðar dala
  • 2. Elon Musk, Tesla, SpaceX, Bandaríkin, 151 milljarður dala
  • 3. Bernard Arnault og fjölskylda, LVMH, Frakkland, 150 milljarðar dala
  • 4. Bill Gates, Microsoft, Bandaríkin, 124 milljarðardala
  • 5. Mark Zuckerberg, Facebook, Bandaríkin, 97 milljarðar dala
  • 6. Warren Buffett, Berkshite Hathaway, Bandaríkin, 96 milljarðar dala
  • 7. Larry Ellison, Oracle, Bandaríkin, 93 milljarðar dala
  • 8. Larry Page, Google, Bandaríkin, 91,5 milljarðar dala
  • 9. Sergey Brin, Google, Bandaríkin, 89 milljarðar dala
  • 10. Mukesh Ambani, Indland, 84,5 milljarðar dala

Kanye West, fyrrverandi eiginmaður Kim Kardashian West, var þegar á milljarðamæringalista Forbes, en auðævi hans eru metin á 1,8 milljarða. Kardashian sótti um skilnað í febrúar síðastliðinn. Kylie Jenner, yngri hálfsystir Kims, missti sæti sitt á listanum í maí síðastliðinn.

Forbes segir að Kardashian hafi auðgast mikið síðustu mánuði, sér í lagi vegna hluta hennar í snýrtivörumerkinu KKW Beauty og fatamerkinu Skims. Hafi auðævi hennar farið úr 780 milljónum Bandaríkjadala í október í milljarð dala nú.

Björgólfur Thor Björgólfsson er einnig að finna á lista Forbes, en hann skipar 1.444. sæti listans og eru auðævi hans metin á 2,2 milljarða dala. Hann skipaði 1.063. sæti listans á síðasta ári.

Í 2.674. sæti listans er svo að finna Davíð Helgason, sem fæddist á Íslandi en er skráður sem Dani. Hann stofnaði hugbúnðarfyrirtækið Unity Software í Kaupmannahöfn árið 2004 og er auður hans nú metinn á einn milljarð dala.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×