Körfubolti

Boogi­e fær nýtt tæki­færi í borg englanna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
DeMarcus Cousins hefur samið við Los Angeles Clippers til skamms tíma.
DeMarcus Cousins hefur samið við Los Angeles Clippers til skamms tíma. Carmen Mandato/Getty Images

Miðherjinn DeMarcus „Boogie“ Cousins skrifaði í gær undir tíu daga samning við Los Angeles Clippers í NBA-deildinni. Cousins hefur ekki spilað síðan í febrúar er Houston Rockets losaði hann undan samningi.

Boogie lék aðeins 25 leiki með Houston Rockets áður en félagið ákvað að borga hann út. Hann getur því samið við annað lið í deildinni og virðist nú eiga að leysa miðherja vandræði Los Angeles Clippers.

Hinn þrítugi miðherji var á árum áður einn sá besti í deildinni og hefur til að mynda fjórum sinnum verið valinn í Stjörnuleik NBA-deildarinnar. Hann hefur glímt við erfið meiðsli á undanförnum árum og ekki náð að sýna sínar bestu hliðar. 

Hann fær nú tækifæri til þess í frábæru Clippers liði sem inniheldur ofurstjörnurnar Kawhi Leonard og Paul George að ógleymdum Rajon Rondo.

Í 25 leikjum fyrir Houston á þessari leiktíð var Cousins með að meðaltali 9.6 stig, 7.6 fráköst og 2.4 stoðsendingar. Þá spilaði hann að meðaltali 20 mínútur í leik.

Á ferli sínum í NBA-deildinni hefur Cousins spilað samtals 590 leiki fyrir Sacramento Kings, New Orleans Pelicans, Golden State Warriors og Houston Rockets. Þar er meðaltal hans töluvert hærra eða 20.8 stig í leik, 10.7 fráköst og 3.2 stoðsendingar.

Boogie samdi við Los Angeles Lakers í júlí 2019 en hann sleit skömmu síðar krossband í hné og lék ekkert með liðinu. Nú fær hann annað tækifæri til að láta ljós sitt skína í borg Englanna.

Los Angeles Clippers eru sem stendur í 3. sæti Vesturdeildarinnar með 33 sigra og 18 töp til þessa. 


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.