Lífið

Rapparinn DMX sagður milli heims og helju eftir ofneyslu lyfja

Eiður Þór Árnason skrifar
DMX á ONE Musicfest tónlistarhátíðinni í Atlanta í Georgíu í september árið 2019. 
DMX á ONE Musicfest tónlistarhátíðinni í Atlanta í Georgíu í september árið 2019.  Getty/Paras Griffin

Bandaríski rapparinn og lagahöfundurinn Earl Simmons, betur þekktur sem DMX, er sagður í alvarlegu ástandi á gjörgæslu eftir ofneyslu lyfja.

Frá þessu greinir slúðurmiðilinn TMZ og hefur eftir ónefndum heimildarmönnum að rapparinn hafi verið fluttur með hraði á spítala í New York í gær eftir að neyslan hafi leitt til hjartaáfalls.

Að sögn TMZ er Simmons meðvitundarlaus og hafa læknar varað við því hann komist mögulega ekki lífs af. Rapparinn, sem hefur gert garðinn frægan með lögum á borð við X Gon' Give It To Ya og Party Up (Up in Here), hefur glímt við fíknivanda og farið nokkrum sinnum í vímuefnameðferð á löngum tónlistarferli sínum.

Fram kemur í frétt TMZ að DMX hafi síðast farið í meðferð árið 2019 eftir að hafa lokið tólf mánaða dómi fyrir skattalagabrot. Á þeim tíma hafði slúðurmiðilinn eftir heimildarmönnum að rapparinn hefði ekki horfið aftur til fyrra horfs en skráð sig í meðferð af ótta við að gamlar freistingar gætu dregið hann niður dimmar slóðir.

Að lokinni meðferð sneri hann aftur á tónlistarsviðið í desember 2019 þegar hann kom fram á sviði í Las Vegas.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.