Viðskipti innlent

Segja halla mjög á Íslendinga í samningum við Norðmenn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað. Einar Árnason

Forystumenn loðnuútgerða og skipstjórar eru afar ósáttir við hversu hátt hlutfall Norðmenn fá af loðnukvótanum og segja að mjög halli á Íslendinga í skiptisamningi um þorskveiðar í Barentshafi.

Á nýliðinni loðnuvertíð fengu íslensk skip 55 prósent af loðnukvótanum. 45 prósent kvótans fóru til norskra, grænlenskra og færeyskra skipa. Endanlegur kvóti reyndist 127 þúsund tonn en af honum fóru 57 þúsund tonn til erlendra skipa.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, betur þekktur sem Binni í Vinnslustöðinni.Egill Aðalsteinsson

„Við erum ekki sátt við það,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar. Í fréttum Stöðvar 2 segir hann samninginn við Norðmenn mjög sérkennilegan; að Íslendingar séu að versla loðnu í eigin lögsögu fyrir þorsk í Barentshafi.

Fréttir voru í byrjun vertíðar í ár um að íslenskar vinnslustöðvar væru að kaupa loðnu af norskum skipum sem þau veiddu í íslenskri lögsögu fyrir vel yfir 200 krónur kílóið. Skipstjórar íslenskra skipa eru svekktir að sjá kannski tíu milljarða króna loðnuverðmæti falla til erlendra útgerða.

Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti NK.Sigurjón Ólason

„Allt of mikið,“ segir Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti NK. „Ágætt fyrir þá sem eru að veiða þorsk, sjálfsagt.“

„Við erum í raun og veru að fá ekki nema 55 prósent af heildaraflanum. Við vorum að fá 78 prósent af aflanum áður. Þetta er svolítið umhugsunarefni,“ segir Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Kap VE.

Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Kap VE.Vísir/Egill

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir nágrannaþjóðir í gegnum strandríkjasamning um loðnustofninn eiga sína hlutdeild í loðnunni.

„En síðan aftur á móti svekkir það okkur dálítið – við erum með gamlan samning um Barentshafið, eftir að Íslendingar hættu að veiða þorsk í Smugunni, þá sömdum við um að fá að veiða í Barentshafinu – sem okkur finnst halla töluvert orðið mikið á Íslendinga í. Þeir fá gríðarlega mikið af loðnu.

Og núna eftir að loðnukvótar eru orðnir þetta litlir þá hafa bara verðmætin margfaldast í loðnunni. Þannig að það hallar orðið mjög á Íslendinga í þeirri jöfnu,“ segir Gunnþór.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2.


Tengdar fréttir

Nýr loðnukvóti ávísun á yfir tíu milljarða króna gjaldeyristekjur

Hafrannsóknastofnun leggur til að loðnukvótinn tvöfaldist frá því sem áður var búið að gefa út, samkvæmt nýrri ráðgjöf sem birt var í kvöld. Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brims hf., segir varlega áætlað verðmæti þess sem fellur í hlut íslenskra skipa vel yfir tíu milljarðar króna í útflutningsverðmæti.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×