Um­fjöllun og við­töl: KA - Stjarnan 27-32 | Stjarnan sótti tvö stig norður

Rúnar Þór Brynjarsson skrifar
Björgvin Hólmgeirsson og félagar í Stjörnunni gerðu góða ferð til Akureyrar.
Björgvin Hólmgeirsson og félagar í Stjörnunni gerðu góða ferð til Akureyrar. vísir/hulda margrét

Stjarnan er komið upp fyrir KA í Olís deildinni eftir fimm marka sigur fyrir norðan í dag, 32-27, en leikurinn var mikilvægur í baráttunni um úrslitakeppnissæti.

Fyrri hálfleikur var jafn eins og við var að búast og skiptust liðin á að skora. Markahæstur í liði Stjörnunnar í fyrri hálfleik var Starri Friðriksson með 6 mörk en gestirnir voru duglegir að finna hann í hægra horninu. Hjá heimamönnum var það Árni Bragi Eyjólfsson með 5 mörk.

Stjörnumenn byrjuðu af krafti og náði KA aldrei sama gír og gestirnir úr Garðabænum. Áfram var Starri að finna sig vel í horninu og hrökk Adam Thorstensen í gang í marki Stjörnunnar sem gerði gæfumuninn.

Hverjir stóðu uppúr hjá Stjörnunni?

Starri Friðriksson var flottur í dag og endaði hann með 9 mörk. Næst á eftir honum kom Björgvin Hólmgeirsson með 6 mörk.

Adam Thorstensen var frábær í seinni hálfleik í markinu og endaði hann með 14 varin skot.

Hverjir stóðu uppúr hjá KA?

Árni Bragi Eyjólfsson var manna bestur í KA liðinu og skoraði hann 9 mörk.

Næst á eftir komu Aki Egilsnes, Patrekur Stefánsson, Jón Heiðar Sigurðsson og Einar Birgir Stefánsson allir með 4 mörk.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjarnan fékk markvörsluna í gang í seinni hálfleik og var það mjög mikilvægt fyrir þá. þeir voru agaðir varnar og sóknarlega og skilaði þeim að lokum góðan útisigur.

Hvað er næst?

Bæði lið eiga leik á fimmtudaginn. KA fer í heimsókn til Hauka á meðan Stjarnan tekur á móti Aftureldingu í Garðabænum.

„Þetta small í seinni hálfleik“

„Frábær leikur hjá okkur. Fyrri hálfleikur var jafn og ég var þannig séð ánægður með margt. Við vorum með ákveðna taktík að fara framarlega í vörn og það gekk vel fannst mér en við vorum stundum svolítið opnir á köflum. Við vorum með enga markvörslu en í seinni hálfleik þá smellur þetta hjá okkur. Vorum mjög agaðir sóknarlega og er ég hrikalega ánægður með þennan leik,“ sagði Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar.

Adam sást ekki í fyrri hálfleik en lokaði markinu í seinni hálfleik.

„Í seinni hálfleik þá fáum við mjög góða markvörslu en í fyrri hálfleik voru Adam og Siggi slappir. Það voru boltar þar sem ég hefði viljað að þeir myndu taka en ég ræddi bara rólega við Adam í hálfleik og sagði honum að ég hefði bullandi trú á honum og hann var frábær“.

Fyrri hálfleikur var jafn en í seinni hálfleik settu gestirnir í annan gír.

„Ég sagði þeim nákvæmlega það að við höldum okkar skipulagi áfram, varnar og sóknarlega. Og svo kemur Adam og styður vel við þetta. Markmannstaðan er eins og allir vita rosalega mikilvæg. KA menn fengu ekki eins góða markvörslu í dag miðað við okkur“.

„Ég er bara svekktur með frammistöðu okkar í dag“

„Varnarlega vorum við ekki góðir. Ekki eins og ég hefði viljað. Mér fannst við vera einu skrefi á eftir nánast allan leikinn. Við töluðum um það í hálfleik að við þyrftum að ná fleiri stoppum í vörninni. Sóknarleikurinn sérstaklega í fyrri hálfleik gekk vel en eins og ég segi þá fannst mér heilt yfir varnarlega náðum við ekki því sem við ætluðum okkur,“ sagði Jónatan Magnússon, þjálfari KA, í leikslok.

Það gekk illa hjá KA að skora framhjá Adam í marki Stjörnunnar.

„Það vantaði ekki viljann hjá okkur en við fórum hræðilega með færin okkar og það er kannski það sem skilur liðin af á endanum. Við hefðum viljað fá meiri markvörslu og fleiri stopp sérstaklega í seinni hálfleik en því miður þá datt það hinum megin

Fyrir næsta leik þá þurfum við bara að fá betri vörn. Við vorum langt frá því í dag og það er það sem við þurfum að breyta. Sóknarlega þurfum við að klára færin.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.