Skoðun

Palestínsk yfir­völd í slæmum fé­lags­skap

Finnur Thorlacius Eiríksson skrifar

Í síðustu viku greindi Reuters-fréttaveitan frá birtingu tillögu að stofnun fyrirhugaðra alþjóðasamtaka. Sextán aðildarríki Sameinuðu þjóðanna ásamt ríkisstjórn Palestínu koma að tillögunni[1]. Þeirra á meðal eru Íran, Kína, Norður-Kórea, Rússland, Sýrland og Venesúela. Samtökin munu kallast “Vinahópur til varnar stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna”.

Samtökin munu leggja sérstaka áhersla á að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna virði stofnsáttmála þeirra, nánar tiltekið þá grein sáttmálans sem kveður á um að óheimilt sé fyrir aðildarríki að skipta sér af öðrum ríkjum vegna mála „sem koma í aðalatriðum undir eigin lögsögu ríkis“.[2]

Það er augljóslega ekki tilviljun að ríkin sem koma að tillögunni hafa flest verið beitt einhliða viðskiptaþvingunum af vestrænum ríkjum vegna ítrekaðra mannréttindabrota undanfarinn áratug. Með hinum nýstofnuðu samtökum hyggjast þau beita alþjóðasamfélagið þrýstingi til að láta af slíkum aðgerðum óháð stöðu mannréttinda innan ríkjanna.

Það er vert að taka fram að einhliða þvingunaraðgerðir eru ekki óheimilar samkvæmt lögum Sameinuðu þjóðanna sé þeim beitt til að koma í veg fyrir mannréttindabrot. Yfirvöld í Kína hafa hins vegar látið í veðri vaka að tilgangur slíkra aðgerða sé að þvinga fram pólitískar kerfisbreytingar og að á þeim forsendum séu þær ólöglegar.[3] Nýja tillagan byggir einnig á þessari orðræðu og er jafnframt álíka gegnsæ tilraun til að draga athyglina frá þeim mannréttindabrotum sem eru framin á degi hverjum innan ríkjanna sem að henni koma.

Margir munu líklega velta fyrir sér hvaða hag palestínsk yfirvöld gætu haft af því að stilla sér upp á meðal ríkja sem hafa ítrekað virt mannréttindi eigin þegna að vettugi. Hafa palestínsk yfirvöld áhyggjur af því að vera dregin til ábyrgðar fyrir mannréttindabrot? Sjá þau fyrrnefnd ríki sem trausta bandamenn í þrálátri baráttu sinni við Ísraelsríki? Hvert svo sem svarið er verður seint sagt að aðkoma þeirra að tillögunni sé þeim til framdráttar.

Höfundur skrifar fyrir hönd MIFF (Með Ísrael fyrir friði) á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×