Viðskipti innlent

Hið sænska Nordtech Group festir kaup á InfoMentor

Eiður Þór Árnason skrifar
Fyrirtækið InfoMentor, þá Menn og mýs, var stofnað árið 1990 og er nú með starfsstöðvar í fimm löndum. 
Fyrirtækið InfoMentor, þá Menn og mýs, var stofnað árið 1990 og er nú með starfsstöðvar í fimm löndum.  Vísir/Samsett

Sænska fjárfestingafyrirtækið Nordtech Group AB fest kaup á öllu hlutafé í íslenska náms- og upplýsingatæknifyrirtækinu InfoMentor. Framkvæmdastjóri InfoMentor segir að kaupunum fylgi engar sérstakar breytingar á rekstrinum hér á landi eða í umhverfi starfsfólks fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækjunum. Þar segir að baki Nordtech Group standi hópur hugbúnaðarfyrirtækja sem einbeiti sér að langtímafjárfestingum í hugbúnaðarfyrirtækjum á Norðurlöndunum.

„Markmið kaupa Nordtech á InfoMentor er að vinna að frekari útbreiðslu á hinu leiðandi menntakerfi InfoMentor í Evrópu og þá ekki síst víðar á Norðurlöndunum. InfoMentor verður áfram rekið sem sjálfstætt fyrirtæki þar sem Nordtech mun veita InfoMentor öflugan stuðning til áframhaldandi þróunar sem leiðandi fyrirtæki á sínu sviði.“

Að sögn Brynju Baldursdóttur, framkvæmdastjóra InfoMentor, verður fyrirtækið áfram „leiðandi aðili á sínu sviði á Íslandi í þjónustu sinni við skóla og sveitarfélög um allt land.“ Þá sjái forsvarsmenn spennandi tækifæri í kaupunum.

Gott orðspor vakti athygli

Örn Valdimarsson, stjórnarformaður InfoMentor, segir að í kaupum Nordtech felist mikil viðurkenning á því frumkvöðlastarfi sem InfoMentor hafi unnið að í rúma þrjá áratugi.

„Ég lít á langtímafjárfestingu Nordtech í InfoMentor sem mikla viðurkenningu, bæði á því hugviti og reynslu sem við höfum byggt upp, en ekki síður þeim árangri sem fyrirtækið hefur þegar náð á sínu sviði hér á landi og erlendis, þar sem fjöldi notenda skiptir nú þegar milljónum. Við teljum að það séu mörg ný spennandi verkefni fram undan," segir Örn í tilkynningunni.

Nordtech stofnuðu upphaflega Pål Hodann og Nils Bergman sem eru sagðir hafa mikla reynslu af rekstri og uppbyggingu norrænna hugbúnaðarfyrirtækja.

„Sem leiðandi fyrirtæki á sínu sviði býr InfoMentor yfir miklum tækifærum til áframhaldandi vaxtar á sænska og íslenska markaðnum. Það sem vakti áhuga okkar á fyrirtækinu í upphafi var gott orðspor þess, ánægðir viðskiptavinir sem við ræddum við, öflugt teymi og djúp þekking á skólakerfinu," segir Nils Bergman í tilkynningu.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×