Enski boltinn

Gündogan valinn aftur besti leikmaður mánaðarins: Tvöfalt hjá Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ilkay Guendogan fagnar hér ásamt Bernardo Silva í sigri Manchester City á Liverpool á dögunum.
Ilkay Guendogan fagnar hér ásamt Bernardo Silva í sigri Manchester City á Liverpool á dögunum. EPA-EFE/Jon Super

Ilkay Gündogan skrifaði söguna hjá Manchester City í dag þegar hann valinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í febrúar. Knattspyrnustjóri hans Guardiola var kosinn bestur í níunda skiptið.

Gündogan er fyrsti leikmaðurinn í sögu City sem er valinn besti leikmaðurinn tvo mánuði í röð því hann var einnig valinn bestur fyrir janúar.

Ilkay Gündogan var frábær í febrúar á sama tíma og Manchester City liðið stakk af á toppi deildarinnar. Gündogan var með fjögur mörk og eina stoðsendingu í leikjum City í febrúar.

„Ég er mjög stoltur að vinna þessi verðlaun aftur og ég er stoltur af því að vera hluti af þessu frábæra liði,“ sagði Ilkay Gündogan í samtali við heimasíðu Manchester City.

„Það var stórkostlegt hjá okkur að vinna alla leiki okkar í febrúar eins og við gerðum líka í janúar. Vonandi getum við haldið áfram á þessari braut því það sem skiptir öllu máli er að vinna titla,“ sagði Gündogan.

Aðrir sem komu til greina sem besti leikmaðurinn voru Joachim Andersen, Harvey Barnes, Joao Cancelo, Bruno Fernandes, Jesse Lingard, Ruben Neves og Raphinha.

Pep Guardiola var líka valinn besti knattspyrnustjórinn annan mánuðinn í röð. City liðið vann alla sex leiki sína í mánuðinum og endaði febrúar með 20 sigurleiki í röð í öllum keppnum.

Þetta er í níunda skiptið sem Guardiola er kosinn besti stjóri mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni en aðeins þeir Alex Ferguson (27), Arsene Wenger (15) og David Moyes (10) hafa unnið þessi verðlaun oftar.

Aðrir sem komu til greina voru þeir Nuno Espirito Santo, Scott Parker og Thomas Tuchel en það var samt engin spurning um að Pep yrði kosinn bestur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×