Viðskipti

Ís­lands­banki hækkar fasta vexti hús­næðis­lána en fellir niður lán­töku­gjöld af „grænum hús­næðis­lánum“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Frá og með næsta þriðjudegi hækka fastir vextir óverðtryggðra lána hjá Íslandsbanka.
Frá og með næsta þriðjudegi hækka fastir vextir óverðtryggðra lána hjá Íslandsbanka. Vísir/Vilhelm

Frá og með næsta þriðjudegi hækka fastir vextir óverðtryggðra lána hjá Íslandsbanka. Þá taka jafnframt gildi breytingar á vaxtatöflu bankans sem fela í sér að ekkert lántökugjald verður innheimt af svokölluðum grænum húsnæðislánum auk þess sem 0,10% vaxtaafsláttur verður veittur af slíkum lánum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka í gær. Það eru ekki aðeins vextir af óverðtryggðum húsnæðislánum sem hækka heldur hækka innlánsvextir með föstum vöxtum til tólf mánaða einnig, eða úr 1% og upp í 1,2%.

Þá lækka aftur á móti vextir á láni í appi bankans um 0,30 prósentustig af nýjum lánum, og fara lægstu vextir þannig úr 5,95% niður í 5,65%.

Hækkun fastra vaxta óverðtryggðra húsnæðislána sem áður var vísað til nemur á bilinu 0,10 til 0,30 prósentustigum. Þannig hækka vextir óverðtryggðra þriggja ára A húsnæðislána úr 4,10% upp í 4,20% og vextir óverðtryggðra fimm ára B húsnæðislána hækka úr 5,50% upp í 5,80% en nánari sundurliðun um breytingar á vaxtatöflu má nálgast í tilkynningu bankans.

Á heimasíðu bankans segir um græn húsnæðislán að bankinn bjóði „hagstæðari kjör á húsnæðislánum við fjármögnun á vistvænu húsnæði sem hefur hlotið viðurkennda umhverfisvottun.“

Ekkert lántökugjald sé innheimt af slíkum lánum og þar að auki fáist 0,10% vaxtaafsláttur af lánakjörum ef eignin er vistvottuð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×