Körfubolti

„ÍR-liðið virkar ekki af því að þeir eru með eintóma listamenn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
ÍR-ingar fengu Zvonko Buljan til sín á miðju tímabili. Liðið hefur tapað öllum leikjum sínum með hann innanborðs.
ÍR-ingar fengu Zvonko Buljan til sín á miðju tímabili. Liðið hefur tapað öllum leikjum sínum með hann innanborðs. Skjámynd/S2 Sport

ÍR-ingar eru búnir að tapa þremur leikjum í röð og sitja nú í sjöunda sæti Domino´s deildarinnar í körfubolta. Sérfræðingur Domino´s Körfuboltakvölds hefur ákveðna skoðun á því hvað vantar í liðið í Breiðholtinu.

Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Domino´s Körfuboltakvölds, hóf umræðuna um ÍR-liðið með því að fara yfir Zvonko Buljan og allar sóknarvillur hans á móti KR í vetur.

Talið barst fljótt að vandræðum ÍR-liðsins og hvar þau liggja helst. Þar lá einn sérfræðingur ekki á skoðunum sínum.

Benedikt Guðmundsson og Teitur Örlygsson voru sérfræðingar síðasta þáttar.S2 Sport

„Ég veit ekki af hverju þeir töpuðu endilega þessum leik en ég er með ákveðna skoðun á því af hverju ÍR er að tapa leikjum “ sagði Benedikt Guðmundsson, sérfræðingur í Domino´s Körfuboltakvöldi.

„Fyrir mér í fyrsta lagi þá finnst mér Zvonko ekki vera rétti maðurinn fyrir þá. Mér finnst þeir vera með nóg af mönnum til þess að skjóta boltanum og skora. Mér finnst vanta allt jafnvægi í þetta,“ sagði Benedikt.

„Vitið þið hver sé fyrsti kostur, annar kostur, þriðji kostur í sókninni. Fyrir mér er þetta lið fullt af listamönnum. Ef við setjum þetta yfir á samfélag þá virkar samfélag ekki með eintómum listamönnum. Það þurfa að vera verkamenn, iðnaðarmenn og allur skalinn til þess að samfélagið virki,“ sagði Benedikt.

„ÍR-liðið virkar ekki af því að þeir eru með eintóma listamenn. Ég ætla bara að kalla það galið að fá einn skorara í viðbót. Þeir eru með nóg af mönnum til að skora boltanum,“ sagði Benedikt.

Það má heyra alla umræðuna um vandamál ÍR-liðsins í myndbandinu hér fyrir neðan.

Klippa: Dominos Körfuboltakvöld: Vandræði ÍR-inga í körfunni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×