Viðskipti innlent

Nærri 90 prósent sölu tón­listar í gegnum Spoti­fy

Atli Ísleifsson skrifar
Söluandvirði hljóðrita frá útgefendum og dreifendum jókst um 18 prósent á milli áranna 2018 og 2019, samkvæmt tölum frá Spotify.
Söluandvirði hljóðrita frá útgefendum og dreifendum jókst um 18 prósent á milli áranna 2018 og 2019, samkvæmt tölum frá Spotify. Getty

Söluandvirði hljóðrita frá útgefendum og dreifendum jókst um 18 prósent á milli áranna 2018 og 2019. Er það fjórða árið í röð sem söluandvirðið hækkar að raunvirði eftir nær samfelldan samdrátt frá því um aldamót. Nærri níutíu prósent allrar tónlistarsölu á árinu 2019 fór í gegnum tónlistarveituna Spotify.

Frá þessu segir í tilkynningu á vef Hagstofunnar. Þar segir að söluaukninguna síðustu ár megi alfarið rekja til greiðslna á stafrænum skrám í streymi á sama tíma og andvirði af sölu geisladiska og hljómplata hefur dregist saman ár frá ári.

„Nærri lætur að 90% söluandvirðisins árið 2019 stafi af greiðslum fyrir hlustun á tónlistarveitur. Samdráttur í sölu geisladiska og hljómplata kemur einnig fram í sífellt færri útgefnum titlum diska og platna.

Söluandvirði hljóðrita 1991-2019.Hagstofan

Toppurinn var árið 1999

Heildarverðmæti seldra geisladiska, hljómplata og stafrænna skráa árið 2019 nam 802 milljónum króna, þar af voru greiðslur fyrir stafrænar skrár 713 milljónir króna en sala á diskum og plötum 88 milljónir. 

Þrátt fyrir talsverða aukningu í sölu hljóðrita undanfarin þrjú ár, sem alfarið er vegna greiðsla til tónlistarveitna, var söluverðmætið reiknað á föstu verðlagi um helmingi minna árið 2019 en þegar best lét árið 1999.

Útgefin hljóðrit 1979-2019.Hagstofan

Samkvæmt upplagseftirliti Félags hljómplötuútgefenda nam áætluð sala tónlistarveitunnar Spotify til notenda hér á landi tæpum 700 milljónum króna árið 2019. Það jafngildir því að 87% af heildarsöluverðmæti hljóðrita og allt að 98% af streymdri tónlist hafi farið í gegnum tónlistarveituna eða samanlagt fast að 90% tónlistarsölunnar,“ segir í tilkynningu Hagstofunnar.

Sala geisladiska, platna og snældna í þúsundum eintaka 1991-2019.Hagstofan

Tengdar fréttir

Verður byltingunni streymt?

Í bók sinni Capitalism, Socialism and Democracy, sem kom út árið 1942, setti austurríski hagfræðingurinn Joseph Schumpeter fram hugmyndir sínar um skapandi eyðileggingu (e. creative destruction).





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×