Viðskipti innlent

Valgeir frá VÍS yfir til Terra

Eiður Þór Árnason skrifar
Valgeir M. Baldursson hætti sem forstjóri Skeljungs árið 2017.
Valgeir M. Baldursson hætti sem forstjóri Skeljungs árið 2017. Terra/Vís

Valgeir M. Baldursson hefur verið ráðinn forstjóri Terra. Valgeir hefur undanfarin ár starfað sem fjármálastjóri og framkvæmdastjóri hjá VÍS. Þar áður var Valgeir forstjóri Skeljungs en hann hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa hjá ýmsum fyrirtækjum og félögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Terra. Gunnar Bragason, sem hefur starfað sem forstjóri fyrirtækisins, mun starfa áfram með félaginu sem ráðgjafi næstu misserin. Samið hefur verið við hann um að leiða starf félagsins, hvað varðar mögulega aðkomu þess að sorpbrennslu og útflutning á sorpi á næstu mánuðum. Gunnar hefur starfað hjá félaginu síðan í janúar 2008, þar af síðustu ár sem forstjóri. 

„Undir forystu Gunnars hefur félagið vaxið og dafnað og viðhaldið ótvíræðri forystu félagsins á sínum helsta markaði sem er umhverfisþjónusta. Hann hefur tekið þátt í að þróa nýja stefnu og framtíðarsýn félagsins, það er að innleiða nýja hugsun um flokkun og endurvinnslu, og grundvallast í kjörorði fyrirtækisins: Skiljum ekkert eftir,“ segir í tilkynningu.

Terra var valið Umhverfisfyrirtæki atvinnulífsins 2020 og sinnir alhliða umhverfisþjónustu fyrir sveitarfélög og nokkur þúsund fyrirtæki um land allt. Meginstoð fyrirtækisins er flokkun og endurvinnsla og kveðst Terra leiðbeina og hjálpa fyrirtækjum að koma öllum endurvinnsluefnum sem falla til í viðeigandi farveg.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×