Viðskipti innlent

Skeljungur segir upp fólki í skipu­lags­breytingum

Eiður Þór Árnason skrifar
Skeljungur rekur meðal annars bensínstöðvar undir merkjum Orkunnar.
Skeljungur rekur meðal annars bensínstöðvar undir merkjum Orkunnar. vísir/kolbeinn Tumi

Fækkað verður um tuttugu stöðugildi hjá Skeljungi samhliða skipulagsbreytingum sem taka gildi þann 1. mars. Áætlaður kostnaður við breytingarnar er um 100 milljónir króna.

„Markmið skipulagsbreytinganna er að einfalda starfsemina, stytta boðleiðir og hagræða í rekstri. Auk þess er verið að bregðast við því rekstrarumhverfi sem félagið býr við,“ segir í tilkynningu frá félaginu sem var send út í morgun.

Þar segir að helstu breytingar séu þær að verkefni muni færast á milli sviða sem leiði til þess að stöðugildum hjá félaginu fækki. Taka breytingarnar til allra sviða félagsins en engin breyting er gerð á aðilum í framkvæmdastjórn. Nýtt skipurit er samkvæmt tillögu Árna Péturs Jónssonar, forstjóra Skeljungs, og var samþykkt af stjórn félagsins í dag. 

Ólafur Þór Jóhannesson verður staðgengill forstjóra

Fram kemur í tilkynningu að eftirfarandi meginbreytingar verði gerðar samkvæmt hinu nýja skipuriti:

„Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, mun taka við dreifingu eldsneytis, sem áður tilheyrði rekstrarsviði, ásamt því að sinna áfram sölu til fyrirtækja í sjávarútvegi, flugi og landi, ásamt vörusölu og þjónustuveri.

Már Erlingsson verður framkvæmdastjóri innkaupa og birgðahalds í stað framkvæmdastjóri rekstrarsviðs.

Karen Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs, mun taka við verkefnum framkvæmdadeildar, ásamt því að sinna áfram þjónustustöðvum Orkunnar, Kvikk, 10-11 og Extra.

Gróa Björg Baldvinsdóttir, sem áður leiddi lögfræðisvið ásamt því að sitja í framkvæmdastjórn, mun verða framkvæmdastjóri stjórnarhátta og gæðamála. Mannauður og menning, gæða- öryggis- og umhverfismál sem áður tilheyrðu fjármálasviði færast til Gróu, sem og stjórnarhættir og stefna.

Ólafur Þór Jóhannesson mun áfram leiða fjármálasvið en undir því sviði tilheyra móttaka, reikningshald og upplýsingatækni. Auk þess mun Ólafur Þór gegna stöðu staðgengils forstjóra en áður gegndi Már Erlingsson þeirri stöðu.“

Fjárfestingafélagið Strengur eignaðist meirihluta í Skeljungi í byrjun janúar og hafa forsvarsmenn félagsins boðað miklar breytingar á rekstri félagsins. Hafa þeir til að mynda talað fyrir því að selja ýmsar eignir Skeljungs á borð við lóðir, fasteignir og rekstrareiningar. Þá hefur félagið lýst því yfir að það vilji afskrá Skeljung af markaði. Jón Ásgeir Jóhannesson er bæði stjórnarformaður Strengs og Skeljungs.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Lífeyrissjóðir höfnuðu yfirtökutilboði í Skeljung

Líf­eyr­is­sjóð­irnir Frjálsi, Birta, Festa, Stapi og Lífs­verk og Gildi hafa hafnað yfir­tökutil­boði fjár­festa­hóps­ins Strengs ehf. á Skelj­ungi. Lífeyrissjóðirnir eru stærstu eigendur félagsins og fara alls með um 37% hlut.

Forstjórinn seldi allan hlut sinn í Skeljungi

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, seldi í morgun hlutabréf í Skeljungi fyrir 20 milljónir króna. Hann átti 2,25 milljónir hluta og seldi á genginu 8,78 í gegnum félag sitt Hái klettur.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.