Skoðun

Milljóna­markaður ferða­þjónustunnar - keyrum þetta í gang

Jóhannes Bjarni Guðmundsson skrifar

Enn strangari sóttvarnaraðgerðir tóku gildi á landamærunum 19. febrúar s.l. Þetta hefur glumið í fjölmiðlum og sjónum beint að því hversu ómögulegt það er fyrir fólk að ferðast milli landa nú á tímum. En heimsfaraldurinn er í rénun því fjöldi nýrra smita er hratt á niðurleið. Bóluefnin eru komin í dreifingu og það er líka jákvætt.

Ekki ætla ég að gera lítið úr þeirri gríðarlegu kreppu sem ferðaþjónusta á Íslandi glímir nú við og það hryggir mig að sjá svo marga af mínum góðu vinum og fyrrum samstarfsfólki í fluginu vera atvinnulaust og í óvissu með framtíðina. En nú hlýtur að fara verða lag til að bretta upp ermar og hætta stöðugt að horfa á þetta neikvæða og leggjum áherslu á tækifærin sem eru til staðar. Vissulega er búið að herða takmarkanir á landamærunum þannig að upplifun fólks er sú að þau séu harðlokuð. En það er samt ekki alveg lokað og sá hópur sem getur ferðast hingað til lands fer sístækkandi. Ástæðan er sú að sá hópur sem þegar hefur greinst með veiruna og hefur jafnað sig, ásamt þeim sem hafa verið bólusettir, stækkar mjög hratt og þennan hóp má bjóða velkominn hingað til lands og sleppa honum við skimun og sóttkví. Nú þegar þetta er skrifað hafa meira en 110 milljónir manna verið greind með staðfest smit af Covid 19 í heiminum. Dánartíðni er sem betur fer lág þannig að sá stóri hópur sem hefur greinst og náð bata má ferðast til Íslands. Ef við skoðum nokkur nágrannalönd okkar eins og t.d. Bretland þá eru þar yfir 4 milljónir greindra smita. Meira en 600 þúsund manns hafa greinst í Svíþjóð, yfir 200 þúsund manns í Danmörku og nærri 70 þúsund í Noregi. Þetta er nú þegar stór markaður til að bjóða velkomna hingað til lands. Bretar voru fyrstir Evrópuþjóða til að hefja bólusetningu og því er sá hópur ört stækkandi líka, bæði í Bretlandi og í öðrum löndum. Allur þessi hópur má ferðast hingað og af honum stafar engin sérstök hætta. En veit fólkið það? Í umræðunni finnst mér við einblína um of á að loka landamærunum í stað þess að fókusa á þann fjölda fólks sem nú þegar er opið fyrir. Þessu til áréttingar segir á vef stjórnarráðsins: „Þeir sem framvísa gildum bólusetningarvottorðum eru undanskildir kröfu um tvöfalda skimun á landamærum og þurfa heldur ekki að skila vottorði um neikvætt PCR-próf. Sama máli gegnir um þá sem framvísa gildu vottorði vegna fyrri sýkingar af völdum COVID-19.“

Á Íslandi eru um 6000 manns sem greinst hafa með veiruna og náð bata og eru í kjörstöðu til að ferðast að vild ásamt þeim rúmlega 10 þúsund einstaklingum sem þegar eru komnir með bólusetningu. Ef fram heldur sem horfir þá náum við yfirhöndinni yfir faraldrinum og stöðugt fleiri munu geta ferðast milli landa. Því fyrr sem við setjum okkur að grípa tækifærin og efla ferðaþjónustuna á nýjan leik, því fyrr náum við að komast út úr þessari kreppu og minnka atvinnuleysi og bæta hag fólks.

Með von um betri tíð og blóm í haga.

Höfundur er flugmaður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Látum kné fylgja kviði

Íris E. Gísladóttir,Magnea Gná Jóhannsdóttir ,Ágúst Guðjónsson,Unnur Þöll Benediktsdóttir,Jóhann Arinbjarnarson,Knútur Garðarson,Guðjón Þór Jósefsson,Alex B. Stefánsson,Björn Ívar Björnsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.