Handbolti

Aron: Þessi leikur hefur sitt eigið lögmál

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson þekkir leiki Hauka og FH vel, bæði sem leikmaður og ekki síst sem þjálfari.
Aron Kristjánsson þekkir leiki Hauka og FH vel, bæði sem leikmaður og ekki síst sem þjálfari. Vísir/Hulda Margrét

Aron Kristjánsson þjálfari Hauka ætlar að mála bæinn rauðan á í kvöld þegar Haukaliðið heimsækir nágranna sína í FH í Hafnarfjarðaslag í Kaplakrika.

Þetta er ekki bara nágrannaslagur því Haukar og FH eru einnig í tveimur efstu sætum Olís deildar karla í handbolta og aðeins eitt stig skilur að liðin.

Sigurvegari kvöldsins eignar sér því ekki aðeins montréttinn í bænum heldur einnig efsta sæti Olís deildarinnar.

„Þessi leikur hefur sitt eigið lögmál. Það skiptir ekki máli þótt annað liðið sé á toppnum en hitt um miðja deild. Það eru alltaf hörkuleikir á milli þessara liða og það kemur alltaf aukafiðringur þegar við erum að fara að mæta erkifjendunum,“ sagði Aron Kristjánsson í viðtali við Svövu Kristínu Grétarsdóttur.

Aron segist eiga margar góðar minningar frá leikjum Hauka og FH en hann hefur tekið þátt í mörgum leikjum liðanna, fyrst sem leikmaður og svo sem þjálfari.

„Það eru leikir þar sem við höfum unnið stórt og það eru leikir þar sem við höfum tapað. Svo eru þetta leikir sem hafa verið mjög jafnir,“ sagði Aron.

„Ég man alltaf eftir leik á 1996-97 tímabilinu en við urðum bikarmeistarar það tímabil. Við sláum FH út í undanúrslitum á sirkusmarki á síðustu sekúndunum. Það var mjög eftirminnilegt,“ sagði Aron. Það má finna viðtalið við hann hér fyrir ofan.

Jón Freyr Egilsson skoraði markið en Aron átti stoðsendinguna á hann. Aron henti boltanum inn í vítateiginn þar sem Jón Freyr greip hann og skoraði sigurmarkið. Haukar unnu svo 26-24 sigur á KA í bikarúrslitaleiknum í Laugardalshöllinni.

Aron var líka markahæstur í Haukaliðinu í þessum 23-22 sigri með 4 mörk en þeir Gústaf Bjarnason, Petr Baumruk og Óskar Sigurðsson skoruðu líka fjögur mörk fyrir Haukaliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×