Viðskipti innlent

Veitur semja við Securitas um uppsetningu á 160 þúsund snjallmælum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Snjallmælar munu smám saman koma í stað gömlu mælanna.
Snjallmælar munu smám saman koma í stað gömlu mælanna.

Veitur hafa samið við Securitas um uppsetningu á 160 þúsund snjallmælum, í samning sem metinn er á 1,8 milljarð króna. Til stendur að skipta um 102 þúsund rafmagnsmæla, 55 þúsund varmamæla og þrjú þúsund vatnsmæla á þjónustusvæði Veitna.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Veitum.

Þar segir að hafist verði handa við undirbúning verkefnisins á næstu mánuðum en á síðasta ársfjórðungi þessa árs verði lítið svæði tekið fyrir og það „snjallvætt“. 

„Þar verður um eins konar sannprófunarverkefni að ræða áður en hafist verður handa af fullum krafti við mælaskiptin um mitt næsta ár. Áætlanir gera ráð fyrir að snjallmælavæðingu veitukerfanna verði að fullu lokið í árslok 2024,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að nú muni áætlunarreikningar heyra sögunni til og reikningar byggja á raunnotkun.

„Því fylgir að viðskiptavinir geta átt von á árstíðarbundnum sveiflum í orkuútgjöldum. Með nýju mælunum hafa notendur einnig möguleika á að fylgjast með orkunotkuninni á „mínum síðum“ á vef Veitna og gera ráðstafanir til sparnaðar ef þurfa þykir.“

Álestur heyrir sögunni til

 „Við erum ánægð með samninginn við Securitas, sem er þjónustumiðað og framsækið fyrirtæki. Verkefnið er stórt og það skiptir miklu máli að hafa öfluga samstarfsaðila,“ segir Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna.

Hann segir nýju mælana gera Veitum kleift að bæta þjónustu sína og þá mun hefðbundnum heimsóknum til notenda fækka og álestur heyra sögunni til. 

„Með snjallmælunum fást einnig meiri og betri upplýsingar og yfirsýn um veitukerfin sem nýtast til að gera umgengni um sameiginlegar auðlindir okkar enn ábyrgari.“

Ómar Svavarsson, forstjóri Securitas, segist stoltur af því að fá að taka þátt í einstöku og viðamiklu tækniverkefni en Securitas sé einn fjölmennasti vinnustaður rafiðnaðarmenntaðra starfsmanna á Íslandi.

„Þetta spennandi verkefni á mikla samleið með þeirri stafrænu vegferð sem Securitas er á, þar sem lögð er áhersla á snjallvæðingu, gagnsæi og aukna sjálfvirkni. Verkefnið er því í öruggum höndum hjá okkur.“


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×