Umfjöllun: Valur - Kefla­­vík 85-72 | Væng­brotnir Val­sarar unnu topp­liðið sann­­færandi

Árni Jóhannsson skrifar
Valsmenn voru frábærir í kvöld. Þá sérstaklega Pavel Ermolinskij sem átti magnaðan leik.
Valsmenn voru frábærir í kvöld. Þá sérstaklega Pavel Ermolinskij sem átti magnaðan leik. Vísir/Hulda

Vængbrotið lið Vals - sem hafði tapað þremur leikjum í röð - pakkaði toppliði Keflavíkur saman að Hlíðarenda í Dominos-deild karla í kvöld. Lokatölur 85-72 og annað tap Keflavíkur á tímabilinu staðreynd.

Um leikinn

Mönnum er fyrirgefið það að hafa haldið að Keflvíkingar ættu auðveldan leik fyrir höndum þegar þeir mættu Valsmönnum í Origo höllinni fyrr í kvöld enda þeir við fallsvæðið og gestirnir á toppnum. Annað kom þó á daginn. Leikurinn var seinasti leikur 10. umferðar Dominos deildar karla í körfubolta.

Undirritaður sagði í textalýsingu fyrir leik að ef Valsmenn ætluðu sér eitthvað út úr leiknum þá þurftu þeir að ná sínum brag á leikinn en það er að vera gott lið varnarlega. Því náðu þeir og stjórnuðu þeir hraðanum í leiknum. Það sást frá fyrstu mínútu hvað þeir ætluðu sér og náðu þeir að halda gestunum í 16 stigum í fyrsta fjórðung og leiddu þeir eftir hann 21-16.

Valsmenn náðu að komast á smá áhlaup og náðu þeir átta stiga forskoti í upphafi annars leikhluta. Þá var búist við því að Keflvíkingar myndu svara en sökum þess að Valsmenn voru með einbeitinguna í lagi allan leikinn hleyptu þeir Keflvíkingum ekki á neinn sprett og héldu forskotinu þangað til í hálfleik þó að munurinn var ekki nema fjögur stig, 38-34 og var forystan verðskulduð.

Seinni hálfleikurinn var af sama meiði og sá fyrri. Valsmenn náðu að komast á áhlaup í lok þriðja leikhluta og komust þeir mest 13 stigum yfir og aftur bjóst maður við að Keflvíkingar myndu ná að komast aftur inn í leikinn en þeir virkuðu kærulausir og orkulausir og höfðu þeir t.a.m. ekki skorað þriggja stiga körfu fyrr en í þriðja leikhluta og eftir á að hyggja voru þeir aldrei líklegir til að fá eitthvað út úr leiknum.

Keflvíkingar komust næst sjö stigum frá Valsmönnum í fjórða fjórðung en lengra komust þeir ekki. Valsmenn stöðvuðu þá við hringinn trekk í trekk og svöruðu öllum stemmningskörfum með körfu þannig að bálið kviknaði aldrei hjá gestunum þó að neistinn hafi myndast. Valsmenn sigldu sigrinum síðan heim 58-72 og verður þetta að teljast stórsigur hjá Valsmönnum sem voru betri aðilinn og áttu þennan sigur svo sannarlega skilið.

Af hverju vann Valur?

Valsmenn lituðu leikinn sínum litum strax frá fyrstu mínútu. Þeir eru næst besta varnarliðið í deildinni og það kom í ljós í kvöld. Varnarleikurinn var til fyrirmyndar og það skóp sigurinn. Pavel fór þar fremstur í flokki en hann stöðvaði stóru menn Keflvíkinga þannig að sóknarleikur þeirra var gífurlega stirður allan tímann. Valsmenn fengu síðan framlag frá mörgum mönnum sóknarlega og skoruðu fjórir af fimm byrjunarliðsmönnum meira en 15 stig.

Bestur á vellinum?

Pavel Ermolinskij var gjörsamlega frábær í kvöld. Í vörninni stöðvaði hann allt nánast sem koma að körfunni, var með stóru mennina í vasanum og stöðvaði gegnumbrot Keflvíkinga þegar þeir komust framhjá fyrsta varnarmanni. 

Síðan setti hann stóru skotin og var frábær líka sóknarlega. Kappinn skoraði 18 stig, tók sex fráköst, gaf fimm stoðsendingar, stal þremur boltum og varði eitt skot. Þvílíkur leikur.

Tölfræði sem vakti athygli?

Sem dæmi um góðan varnarleik Valsmanna og stirðan sóknarleik Keflvíkinga þá skoruðu Keflvíkingar ekki þriggja stiga körfu í fyrri hálfleik og Hörður Axel var stoðsendingalaus í fyrri hálfleik en hann endaði með fimm en er að meðaltali með nærrum tíu slíkar í leik.

Hvað næst?

Nú tekur við landsleikjahlé og liðin geta hvílt sig og æft síðan af fullu. Þegar hléinu lýkur í lok febrúar þá fara Valsmenn í heimsókn í Grindavík og Keflvíkingar taka á móti Hetti og þar með lýkur fyrri umferð Dominos deildar karla í körfubolta.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira