Viðskipti innlent

Risadagur í Kauphöllinni hjá Icelandair eftir flökkusöguhelgi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Langflestum flugfreyjum Icelandair var sagt upp á síðasta ári. Til stendur að endurráða margar þegar ferðalög verða aftur hluti af lífi fólks.
Langflestum flugfreyjum Icelandair var sagt upp á síðasta ári. Til stendur að endurráða margar þegar ferðalög verða aftur hluti af lífi fólks. Vísir/Vilhelm

Viðskipti með bréf í flugfélaginu Icelandair voru 444 talsins í dag sem er fjórði stærsti dagurinn í fjölda viðskipta frá hlutafjárútboðinu síðastliðið haust og sá stærsti á árinu 2021. Veltan nam 544 milljónum króna svo meðalstærð viðskipta var 1,2 milljónir króna.

Samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands hefur meðalfjöldi viðskipta á dag með bréf í Icelandair frá útboðinu í haust verið 141. Viðskipti í dag voru þreföld á við það. Meðalveltan yfir sama tímabil er 256 milljónir króna sem svarar til meðalstærðar í viðskiptum upp á 1,8 milljónir króna.

Ýmislegt bendir til þess að almenningur en ekki fjársterkir aðilar hafi verið í aðalhlutverki þegar kemur að viðskiptum í dag. Meðalstærð viðskipta á öllum markaðnum undanfarna mánuði er 10,1 milljón króna svo kaupendur í dag hafa verið að spila með mun lægri upphæðir en alla jafna.

Foto: Hanna Andrésdóttir

Flest viðskipti með bréf í Icelandair frá útboðinu í september voru 738 þann 10. desember en viðskiptin numu 998 milljónum króna.

Met í Kauphöllinni í desember

Mikill fjöldi viðskipta verið með bréf Icelandair undanfarna mánuði. 4.974 viðskipti voru gerð með bréf félagsins í desember sem voru þau flestu með eitt félag í einum mánuði í sögu Kauphallarinnar.

Sérfræðingar hjá bönkunum og Kauphöll vildu ekki spekúlera um ástæður þess að svo margir ákváðu að gera viðskipti með bréf Icelandair í dag. 

Hávær orðrómur var um helgina um að samningur við bóluefnaframleiðandann Pfizer um bólusetningu þorra landsmanna væri í höfn. Umræður voru áberandi á samfélagsmiðlum, ábendingum rigndi yfir fjölmiðla og virtist málið á hvers manns vörum. 

Blés á „flökkusögur“

Þórólfur Guðnason sagði á upplýsingafundi í morgun margar „flökkusögur“ í gangi og blés á þessa. Sagði hann að það yrði tilkynnt ef slíkur samningur yrði gerður. Samningsdrög lægju ekki einu sinni fyrir frá Pfizer.

Þá auglýsti Icelandair stöður flugstjóra á Boeing 7373 MAX og Boeing 757 farþegaþotur um helgina. Flugöryggisstofnun Evrópu aflétti á dögunum kyrrsetningu fyrrnefndu vélanna og var von á tveimur MAX-þotum til Íslands frá Spáni öðru hvoru megin við helgina.

Von er á ársuppgjöri frá Icelandair í dag sem verður kynnt í fyrramálið. Fundur stjórnar fyrirtækisins mun standa yfir og ekki ljóst hvenær honum lýkur.


Tengdar fréttir

Þórólfur væntir samningsdraga frá Pfizer

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kannast ekki við að neinn samningur sé í höfn við lyfjaframleiðandann Pfizer. Hann segist bíða eftir samningsdrögum frá lyfjaframleiðandanum og í framhaldinu verði að taka afstöðu til þess hvort samningurinn sé ásættanlegur fyrir Íslands. Fundur er fyrirhugaður í næstu viku.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×