Viðskipti innlent

Gjör­ó­líkir ösku­dagar í Kringlunni og Smára­lind

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Öskudeginum í Smáralind á síðasta ári.
Frá Öskudeginum í Smáralind á síðasta ári. Vísir/Sigurjón

Stjórnendur Kringlunnar stefna á að geta boðið börn í nammileit velkomin og vera með dagskrá fyrir þau á Öskudaginn sem haldinn er 17. febrúar í ár. Rekstraraðilar verslana í Kringlunni hafa í pósti verið hvattir til að vera með glaðninga þegar börnin mæta. Stjórnendur Smáralindar hafa hins vegar ákveðið að blása af hátíðahöldin að þessu sinni vegna heimsfaraldursins.

Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, segir í samtali við Vísi að þó að stefnt sé að því að vera með dagskrá verði farið að öllu með gát. 

„Við tökum náttúrulega einn dag í einu og fylgjumst grannt með öllum fréttum og því sem tengist veirumálum. En við viljum að sjálfsögðu vera með eitthvað fyrir börnin á þessum degi og erum með plön uppi á borðunum. En það er enn hálfur mánuður í þetta og það sama á við í dag og hefur verið síðasta árið – það sem á við í dag á ekki endilega við á morgun,“ segir Baldvina.

Hún segir að leitast hafi verið eftir því við verslanir að vera klárar á þessum degi, sýnist stjórnendum svo að öruggt sé að vera með dagskrá og bjóða börnum upp á glaðninga.

Kringlan hefur á síðustu árum fyllst af börnum á Öskudeginum.Vísir/Sigurjón

Í pósti stjórnenda Kringlunnar til rekstraraðila segir að þá langi mikið til að gleðja börnin á þessum degi og vera með dagskrá líkt og í fyrra þegar við boðið var upp á viðburð á Blómatorgi – að slá köttinn úr tunnunni. Nú gangi áætlunin út á að skipta dagskránni á tvö til þrjú svæði til að dreifa þátttakendum. Þá verði ítrustu sóttvarna beitt.

Smáralind tekur þetta með enn meiri stæl að ári

Aðra sögu er að segja af Smáralind þar sem hátíðahöld vegna Öskudagsins hafi þegar verið blásin af. 

Tinna Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Smáralindar, segir vilja til að tryggja öflugar sóttvarnir í húsinu og í ljósi sóttvarnareglna og samkomutakmarkana sé ekki talið rétt að halda Öskudaginn hátíðlegan að þessu sinni.

„Við kappkostum að vera örugg hérna húsinu. Hingað koma fleiri þúsund börn þennan dag, mikið líf og fjör í húsinu. Svo við teljum það ekki vera rétt að hvetja til þess að verslanir séu með glaðninga fyrir börnin að þessu sinni. Við gerum þetta með enn meiri stæl að ári þegar við höldum þennan og fleiri daga hátíðlega,“ segir Tinna.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.