Viðskipti innlent

Nespresso á Íslandi til sölu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rekstur Nespresso hér á landi virðist ganga vel ef marka má fjárfestakynningu.
Rekstur Nespresso hér á landi virðist ganga vel ef marka má fjárfestakynningu. Getty/Yuriko Nakao

Eigendur eignarhaldsfélagsins Perroy, umboðsaðila Nespresso á Íslandi, hafa ákveðið að bjóða allt hlutafé félagsins til sölu.

Þetta kemur fram í Markaðnum í dag, fylgiblaði Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. Í fréttinni er vísað í fjárfestakynningu og að þar komi fram að tekjur félagsins hafi aukist um nærri fimmtíu prósent í fyrra.

Tekjurnar voru 1.238 milljónir króna og þá jókst hagnaður fyrirtækisins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nærri þrefalt og var 175 milljónir á árinu 2020.

Perroy opnaði fyrstu Nespresso- verslunina í Kringlunni í lok nóvember 2017 en í maí 2019 var önnur verslun opnuð í Smáralind. Tekjurnar af versluninni í Kringlunni námu 425 milljónum króna og tekjurnar af búðinni í Smáralind voru 330 milljónir.

Þá starfrækir félagið einnig netverslun en fram kemur í fjárfestakynningunni tekjur vegna hennar hafi verið 372 milljónir króna í fyrra. Eiginfjárhlutfall félagsins er 52 prósent og engar langtímaskuldir hvíla á því.

Varða Capital er stærsti hlutihafi Perroy með 75,5 prósent hlut en Varða er í eigu þeirra Gríms Garðarssonar, Jónasar Hagan Guðmundssonar og viðskiptafélaga þeirra Edwards Schmidt.

Þá á félagið Hagan Holdin, sem er í eigu Jónasar, með 14,5 prósenta hlut og RE22, sem er í eigu Jóns Björnssonar, forstjóra Origo, tíu prósenta hlut.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hefur umsjón með söluferlinu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×