Handbolti

Steinunn á batavegi eftir höggið þunga og sjónin er öll að koma til

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steinunn Björnsdóttir missti sjón á vinstra auga eftir að hafa fengið högg gegn FH.
Steinunn Björnsdóttir missti sjón á vinstra auga eftir að hafa fengið högg gegn FH. vísir/hulda margrét

Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Fram í handbolta, er á góðum batavegi eftir að hafa fengið þungt högg á augað í leik gegn FH um helgina og misst sjónina tímabundið.

Í upphafi leiksins gegn FH fékk Steinunn skothendi Britney Cots í vinstra augað, missti sjónina og þurfti að fara á sjúkrahús. Síðan hefur hún verið undir ströngu eftirliti lækna.

Í færslu á Facebook-síðu Fram segir að Steinunn sé öll að koma til og læknar eru bjartsýnir á að enginn varanlegur skaði hafi hlotist af högginu. Þar segir einnig að Steinunn hafi mætt til vinnu í dag og meðfylgjandi er mynd af henni með glóðaraugað veglega.

Sjálf segist Steinunn vera á batavegi og sjónin sé alltaf að verða betri. Hún segist styttast í að hún snúi aftur á völlinn og þakkar fyrir allar kveðjurnar sem henni hafa borist síðustu daga.

Fréttir af Steinunni Björnsdóttur! Steinunn Bjornsdottir fyrirliði kvennaliðs Fram slasaðist í leik gegn FH í...

Posted by Fram Handbolti on Thursday, January 28, 2021

Fram vann leikinn gegn FH með miklum yfirburðum, 41-22. Fram er í 2. sæti Olís-deildarinnar með átta stig, einu stigi á eftir toppliði Vals.

Næsti leikur Fram er gegn KA/Þór á Akureyri á laugardaginn.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×