Handbolti

Spánn rúllaði yfir Ung­verja­land og allt opið í riðli tvö

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það var rosaleg spenna í leik Argentínu og Katar.
Það var rosaleg spenna í leik Argentínu og Katar. EPA-EFE/Mohamed Abd El Ghany

Spánn vann stórsigur á Ungverjalandi í úrslitaleiknum um fyrsta sætið í milliriðli eitt en það er allt komið upp í háaloft í milliriðli tvö þar sem allt er enn galopið.

Bæði Spánn og Ungverjaland voru komin áfram í átta liða úrslitin en sigurvegari leiksins myndi taka efsta sæti riðilsins. Spánverjar sýndu mátt sinn megin á meðan Ungverjar hreifðu við liðinu.

Þeir voru 21-14 yfir í hálfleik en hægri hornamaðurinn Ferran Solé var kominn með átta mörk í fyrri hálfleik. Lokatölur urðu að endingu 36-28 en liðin skiptust á góðum köflum í leiknum. Spánn mætir því Noregi í átta liða úrslitunum en Ungverjar mæta Svíum.

Solé var markahæstur í liði Spánar þrátt fyrir að spila bara fyrri hálfleikinn. Hinn hægri hornamaðurinn, Aleix Gomez, sem spilaði síðari hálfleikinn skoraði sjö mörk. Matyas Gyori og Zsolt Balogh gerðu fimm mörk hvor.

Það er allt opið í milliriðli tvö eftir að Katar vann sigur á Argentínu, 26-25. Argentína byrjaði af miklum krafti og náði góðri forystu en leiddi þó bara með einu marki í hálfleik. Katar var sterkari aðilinn í síðari hálfleik og vann að endingu með einu marki eftir spennutrylli.

Federico Pizarro og Lucas Dario Moscariello skoruðu sex mörk hvor fyrir Argentínu en Frankis Marzo skoraði átta mörk fyrir Katar.

Katar er því með sex stig, líkt og Argentína, en betri innbyrðis viðurreign. Króatía er með fimm stig og með sigri í kvöld, gegn heimsmeisturum Dana, fara þeir áfram í átta liða úrslit en öll þrjú liðin eiga enn möguleika á því að fara áfram, allt eftir því hvernig leikur kvöldsins fer.

Átta liða úrslitin fara fram á fimmtudagskvöldið. Spánn mætir Noregi, Danir taka á heimamönnum, Frakkland mætir Ungverjum og svo mætir Svíþjóð liðinu sem kemst áfram í milliriðli tvö.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.