Handbolti

Pirraður á spurningu blaða­manns

Anton Ingi Leifsson skrifar
Nikolaj hvæsir á sína menn í leiknum gegn Japan.
Nikolaj hvæsir á sína menn í leiknum gegn Japan. Getty/Slavko Midzor

HM í Egyptalandi er fyrsta heimsmeistaramótið í handbolta sem er með 32 lið. Gæði mótsins voru til umræðu á blaðamannafundi Dana í gær og þjálfari Dana, Nikolaj Jacobsen, var ekki par hrifinn af spurningu blaðamanns.

Danir hafa nú spilað fimm leiki en hafa ekki enn mætt Evrópuþjóð. Því var Nikolaj spurður hvort að það hafi ekki bara verið þvæla að fjölga liðum og þjóðir á borð við Barein og Úrúgvæ komust í milliriðla.

„Ég verð bara að segja að þá fylgist þú ekki með og mér finnst þú bera of litla virðingu fyrir þessum þjóðum sem eru með á HM og eru að reyna gera sitt besta,“ sagði Nikolaj og hélt áfram:

„Ég vil ekki svara þessari spurningu sem mér finnst út í hött.“

Næsta spurning snerist svo um hvort að það þyrfti að búa til A og B keppni. Nikolaj var stuttorður í svari við þeirri spurningu: „Nei.“

Danir spila klukkan 19.30 sinn síðasta leik í milliriðlinum er þeir mæta fyrstu Evrópuþjóðinni, Króatíu, en Danir hafa nú þegar tryggt sér toppsætið í riðlinum og sæti í átta liða úrslitunum.

Þar mæta þeir heimamönnum, Egyptalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×