Viðskipti erlent

Google hótar að loka á leitarvél sína í Ástralíu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Google hótar að loka á þjónustu sína í Ástralíu en hefur samið við fréttamiðla í Frakklandi um greiðslur vegna aðgangs að efni þeirra.
Google hótar að loka á þjónustu sína í Ástralíu en hefur samið við fréttamiðla í Frakklandi um greiðslur vegna aðgangs að efni þeirra. Getty/Valera Golovniov

Tæknirisinn Google segir að ef stjórnvöld í Ástralíu haldi því til streitu að rukka Google og Facebook sérstaklega fyrir það þegar fréttum er deilt á síðunum, muni Google einfaldlega hætta starfsemi í Ástralíu og loka á síðuna í landinu.

Yfirvöld í Ástralíu vilja setja ný lög sem eru hugsuð sem sárabót fyrir minnkandi auglýsingatekjur innlendra miðla, en æ fleiri kjósa að auglýsa einfaldlega á Facebook eða Google.

Ástralska frumvarpið gerir það að verkum að fjölmiðlar fá eitthvað fyrir sinn snúð þegar fréttum frá þeim er dreift á samfélagsmiðlunum og eru allir helstu fjölmiðlar Ástralíu, þar á meðal miðlar Ruperts Murdoch, búnir að lýsa yfir stuðningi við hugmyndina.

Þessi hótun Google um að loka á þjónustuna í Ástralíu fór illa í forsætisráðherrann Scott Morrison sem segir að Ástralir bregðist ekki vel við hótunum. Það séu Ástralir sem ákveði hvað megi og hvað megi ekki í Ástralíu.

Fréttir af því að Google hyggist loka á þjónustu sína í Ástralíu verði frumvarpið að lögum bárust nokkrum klukkutímum eftir að greint var frá samningi sem bandaríski tæknirisinn hefur náð við franska fréttaútgefendur um að greiða fyrir fréttir þeirra.

Samkvæmt samkomulaginu mun Google semja við einstaka franska fréttamiðla um greiðslur vegna réttinda og aðgang að efni þeirra í nýrri fréttaveitu fyrirtækisins sem heitir News Showcase.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.