Körfubolti

LeBron James sjóheitur þegar Lakers byrjaði langt útileikjaferðlag á sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James var illviðráðanlegur í nótt enda setti hann niður sex af tíu þriggja stiga skotum sínum.
LeBron James var illviðráðanlegur í nótt enda setti hann niður sex af tíu þriggja stiga skotum sínum. AP/Jae C. Hong

LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers voru sjóðheitir fyrir utan þriggja stiga línuna í NBA deildinni í körfubolta í nótt. New York Knicks vann Golden State og sigurganga Utah Jazz hélt áfram.

LeBron James skoraði 34 stig þegar Los Angeles Lakers vann 113-106 útisigur á Milwaukee Bucks en þetta var fyrsti leikurinn í löngu ferðalagi Lakers liðsins þar sem liðið spilar sjö útileiki í röð.

LeBron James hafði ekki skorað meira í einum leik á tímabilinu en hann ætlaði greinilega að passa upp á það að liðið kæmi sterkt til baka eftir tapið á móti Golden State Warriors í leiknum á undan.

James var auk stiganna með 8 stoðsendingar og 6 fráköst en liðið vann fær 38 mínútur sem hann spilaði með 15 stigum. Kentavious Caldwell-Pope skoraði 23 stig og Anthony Davis var með 18 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar.

James var annar á eftir Giannis Antetokounmpo hjá Milwaukee Bucks í kjörinu á mikilvægasta leikmann NBA-deildarinnar á síðustu leiktíð og þetta var fyrsta viðureign þeirra félaga síðan þá. Giannis var með 25 stig, 12 fráköst og 3 stoðsendingar í nótt en hann tapaði líka níu boltum. Jrue Holiday skoraði 22 stig og Khris Middleton var með 20 stig.

Leikmenn Lakers liðsins röðuðu niður þriggja stiga skotum í leiknum en þeir hittu alls úr 19 af 37 skotum fyrir utan. James setti niður sex af tíu þriggja stiga skotum sínum en Caldwell-Pope gerði enn betur með því að setja niður sjö af tíu.

New York Knicks liðið er komið á skrið en liðið vann 119-104 sigur á Golden State Warriors í nótt. Þetta var þriðji sigur liðsins í röð. RJ Barrett var með 28 stig og 5 stoðsendingar, Mitchell Robinson skoraði 18 stig og Julius Randle var með 16 stig, 17 fráköst og 9 stoðsendingar.

Steph Curry var með 30 stig fyrir Golden State liðið sem náði ekki að fylgja eftir sigri á Lakers í leiknum á unan. Curry hitti úr 5 af 14 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Andrew Wiggins var næststigahæstur með 17 stig og nýliðinn James Wiseman skoraði 15 stig.

Donovan Mitchell skoraði 36 stig á aðeins 34 mínútum þegar Utah Jazz vann 129-118 sigur á New Orleans Pelicans en Utah liðið hefur nú unnið sjö leiki í röð og ellefu af fimmtán leikjum tímabilsins.

Mike Conley skoraði 20 stig og Jordan Clarkson kom með 19 sitg inn af bekknum. Zion Williamson skoraði 27 stig fyrir Pelicans liðið og Brandon Ingram var með 23 stig.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.