Handbolti

„Verður erfitt að sofna í kvöld“

Sindri Sverrisson skrifar
Elliði Snær Viðarsson með gott tak á Andy Schmid í dag.
Elliði Snær Viðarsson með gott tak á Andy Schmid í dag. EPA-EFE/URS FLUEELER

„Þetta er ótrúlega fúlt. Það verður erfitt að sofna í kvöld,“ sagði Elliði Snær Viðarsson eftir tapið sára gegn Sviss á HM í handbolta í dag.

Elliði ræddi við RÚV eftir leik og aðspurður hvað hefði riðið baggamuninn svaraði hann:

„Ég ætla að segja að markmaðurinn hjá hinum hafi bara verið alvöru sigurvegari. Hann var geggjaður í þessum leik,“ sagði Elliði sem er á sínu fyrsta stórmóti og stóð sig vel í varnarleiknum í dag.

Andy Schmid leiddi sóknarleik Sviss sem gekk illa en þó ekki eins illa og sóknarleikur Íslands. Schmid innsiglaði þó sigurinn með marki á lokamínútunni:

„Við vissum það allir [að Schmid tæki skotið]. Það var bara spurning hvernig það yrði í síðustu sókninni. Ég ákvað að meta það þannig að hann gæti tekið skotið og við hefðum getað fengið það varið og fengið jafntefli eða sigur úr þessum leik. En hann er geggjaður í handbolta og skoraði í dag. Það hefði verið betra að hafa það hins veginn,“ sagði Elliði við RÚV.

„Loftið úr okkur síðustu mínúturnar“

Elliði tók undir að það væri ekki hægt að fá eitthvað úr leik á HM með sóknarleik eins og í dag:

„Alls ekki. En það er svona þegar öll dauðafærin okkar, eða megnið af þeim, fara í súginn. Þá fer loftið úr okkur síðustu mínúturnar og þetta verður erfiðara og erfiðara, og við missum kannski trú á þessu sóknarlega. Ef við hefðum fengið 2-3 mörk inn þá hefðu þeir verið að elta og þá hefði þetta orðið allt annar leikur,“ sagði Elliði.

Næstu leikir eru við stórlið Frakka á föstudag og Norðmanna á sunnudag, og verða væntanlega síst auðveldari:

„Við förum í alla leiki til að vinna, það skiptir ekki máli þó það séu Frakkar eða Norðmenn eða Danir eða hvað. Við horfum bara til næsta leiks og ætlum að klára hann,“ sagði Elliði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×