Viðskipti innlent

Langþráðar rafrænar þinglýsingar verði að veruleika á þessu ári

Eiður Þór Árnason skrifar
Andri Heiðar Kristinsson leiðir verkefnið Stafrænt Ísland. 
Andri Heiðar Kristinsson leiðir verkefnið Stafrænt Ísland.  Vísir/Vilhelm

Rafrænar þinglýsingar verða að veruleika á þessu ári, að sögn Andra Heiðars Kristinssonar, stafræns leiðtoga fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þetta kom fram í máli hans á fundi sem Samtök fjármálafyrirtækja stóðu meðal annars fyrir í dag en Andri leiðir verkefnið Stafrænt Ísland.

Frumvarp sem heimilar framkvæmd rafrænna þinglýsinga var samþykkt á Alþingi í lok árs 2018. Það ár sagði Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, að með breytingunum yrði ferlið „nánast sjálfkrafa þegar tölvukerfið verður komið í gagnið.“

Þá var haft eftir Bergþóru Sigmundsdóttur, sviðsstjóra hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, að með tilkomu rafrænna þinglýsinga yrði fullnægjandi skjölum þinglýst á sekúndubrotum.

Fram að þessu hefur móttaka, þinglýsing, afgreiðsla, aflýsing og afhending þinglýstra skjala farið fram á skrifstofu embættis sýslumanns og getur í sumum tilvikum tekið margar vikur að afgreiða erindið.

Spá miklum þjóðhagslegum ávinningi

Greint er frá yfirlýsingu Andra á vef Samtaka atvinnulífsins og sagt að dæmi séu um að þinglýsingarferlið sé orðið rafrænt í löndum á borð við Danmörku og Bretland. Eftir breytinguna taki ferlið ekki lengri tíma en nokkrar mínútur.

Samkvæmt útreikningum Stafræns Íslands, einingar innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins, getur þjóðhagslegur ávinningur af upptöku rafrænna þinglýsinga verið mikill og er að lágmarki metinn á bilinu 1,2 til 1,7 milljarðar króna á ári.

Má ætla að ávinningurinn verði fyrst og fremst tímasparnaður hjá sýslumönnum, lánastofnunum, fasteignasölum og almenningi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×