Skoðun

Hvers vegna hefur ein­hver það vald?

Gunnar Hnefill Örlygsson skrifar

Milli jóla og nýárs tók ég eftir því er ég leit til veðurs á vindasömu kvöldi, að sorptunnan hafði tapað í átökum sínum við vindhviður og rusl var fokið á víð og dreif. Þetta þótti mér miður og stökk ég af stað út í vindinn að eltast við það sem hafði farið á flug. Einn maður í myrkri og vindi að eltast við fjúkandi rusl á aðra klukkustund, hversvegna? Því mér er umhugað um umhverfi mitt og náttúruna.

Statt og stöðugt erum við að verða meðvitaðri um náttúru- og umhverfisvernd, sem er jákvætt og til bóta. Vilji okkar til að gera betur er að aukast ásamt þekkingu okkar á afleiðingum mengunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. En það er jú einn megin tilgangur lífsins að læra af mistökum og gera betur. Skilningur eykst á skaðlegum áhrifum okkar á náttúruna með óvarlegri meðhöldun spilliefna, sorpi, örplastmengun og óhóflegri losun gróðurhúsalofttegunda. Því fylgir súrnun sjávar, hækkandi hitastig og hnattræn hlýnum. Líffræðingar og aðrir náttúrurannsakendur hafa lengi talað um áhrif hnattrænnar hlýnunar á lífríki jarðar. En hún er einnig farin að birtast okkur skýrar á okkar eigin búsvæðum með veðurfarsbreytingum, oft með skelfilegum afleiðingum, sem við sjáum í vatnavöxtum, aurskriðum, þurrkum og skógareldum. Við þessu viljum við bregðast og eru þjóðir heimsins farnar að huga betur að þessum málum og úrlausnum við þeim. Það er gott.

Það vakti athygli mína í síðastliðinni viku í kjölfar þeirrar ringulreiðar sem skapaðist í bandarískum stjórnmálum, þegar þingforseti fulltrúardeildar Bandaríkaþings sá ástæðu til þess að spyrja um ákvörðunarvald forseta Bandaríkjanna til þess að virkja beitingu kjarnavopna. Ef slík áætlun yrði virkjuð af forseta, hvort hægt yrði með einhverjum ráðum að koma í veg fyrir og stöðva hana.

Við það vaknar sú spurning hjá mér: Hvers vegna hefur einhver það vald, að geta ræst af stað slíka tortímingu með beitingu gereyðingavopna, þar sem líf og náttúra eru í einni andrá þurrkuð út á stóru svæði, sem ólífvænt verður í áratuga raðir með skaðlegri mengun.

Við eigum bara þessa einu jörð og ef við setjum stærð hennar í áþreifanlegt samhengi, þá erum við ekki lengi að komast hvert sem við viljum um hana með nútíma samgöngum. Ábyrgð okkar í lífssögunni sem tímabundnir ábúendur jarðarinnar er gríðarleg. Því verðum við að leita allra leiða til þess að vernda hana frekar en eyðileggja. Sem siðað framsýnt heimssamfélag er það skylda okkar að gera kröfu um það, að þjóðarleiðtogar og heimsbyggðin öll, átti sig á því að til eru aðrar og betri leiðir til samningaviðræðna og valdatafls en gereyðingarvopn. Því verður samstaða og heimssátt að nást um það, að slík ógn við jarðríki okkar eigi aldrei að vera til.

Höfundur er nemandi í fjármálaverkfræði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.