Viðskipti erlent

Gæti misst af þrjátíu milljörðum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bitcoin er rafræn mynt og stunda eigendur hennar ekki viðskipti með skildingi líkt og þessum.
Bitcoin er rafræn mynt og stunda eigendur hennar ekki viðskipti með skildingi líkt og þessum. vísir/getty

Þýski forritarinn Stefan Thomas á ekki nema tvær tilraunir eftir til að finna lykilorðið að harða disknum sínum. Venjulega væri það ekkert stórmál en á þessum diski Thomas er Bitcoin-veski með rafmynt að andvirði 31 milljarðs íslenskra króna.

The New York Times greindi frá málinu en virði rafmyntarinnar er nú í hæstu hæðum. Eitt Bitcoin er virði tæplega 4,5 milljóna króna og fékk Thomas 7.002 einingar í greiðslu fyrir að búa til myndband um hvernig rafmyntir virka fyrir rúmum áratug.

Þá var myntin ekki virði nema fáeinna bandaríkjadala og geymdi Thomas veskið á hörðum diski og skrifaði lykilorðið á blað sem nú er týnt. Eftir tíu rangar ágiskanir verður disknum læst og veskið óaðgengilegt.

Alex Stamos, fyrrverandi yfirmaður öryggismála hjá Facebook, bauð Thomas aðstoð sína á Twitter, sagðist geta komist framhjá lykilorðinu í skiptum fyrir tíu prósenta hlut.

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu er þetta ekki í fyrsta skipti sem menn verða af milljörðum vegna tapaðra Bitcoin-veskja. Talið er að Bitcoin-einingar að andvirði átján billjóna króna séu fastar í læstum veskjum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×