Viðskipti erlent

Amazon neitar að hýsa Parler

Sylvía Hall skrifar
Parler gefur sig út fyrir að vera miðill tjáningar- og málfrelsis. Framkvæmdastjórinn John Matze, segist ekki ætla að láta eftir pólitískum fyrirtækjum og þeim valdboðssinnum sem hata tjáningarfrelsið“.
Parler gefur sig út fyrir að vera miðill tjáningar- og málfrelsis. Framkvæmdastjórinn John Matze, segist ekki ætla að láta eftir pólitískum fyrirtækjum og þeim valdboðssinnum sem hata tjáningarfrelsið“. Getty/Gabby Jones

Amazon hefur tilkynnt samfélagsmiðlinum Parler að fyrirtækið muni ekki hýsa síðuna vegna brota á notendaskilmálum. Því mun Parler ekki lengur vera aðgengileg nema síðan finni sér nýjan stað til þess að hýsa vefinn.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins tilkynnti Amazon Parler að 98 færslur hafi fundist á síðunni sem hvöttu til ofbeldis.

Amazon fylgir þannig bæði Google og Apple, sem hafa gripið til aðgerða gegn samfélagsmiðlinum og eru með hann undir smásjá. Google fjarlægði Parler úr Play Store, þar sem notendur geta náð í forrit, og gerði Apple slíkt hið sama í gær eftir að hafa varað miðillinn við að hann gæti verið tekinn úr App Store ef ekki yrði gripið til aðgerða gegn hatursfullum færslum.

Parler gefur sig út fyrir að vera miðill tjáningar- og málfrelsis þar sem „alvöru skoðanaskipti“ fara fram, en þar má finna fjölmarga stuðningsmenn forsetans sem og fólk sem aðhyllist QAnon samsæriskenninguna. Samkvæmt henni er djúpríki vestanhafs sem starfar gegn Trump og starfrækir net djöfladýrkandi barnaníðinga sem stjórnar heiminum á bakvið tjöldin.

Margir sem hafa verið bannaðir á Twitter vegna hatursorðræðu hafa því snúið sér að Parler, sem nýtur mikilla vinsælda meðal fólks á hægri væng stjórnmálanna og þá sérstaklega stuðningsmanna Donald Trump fráfarandi Bandaríkjaforseta.

Á meðal vinsælla notenda Parler er þingmaðurinn Ted Cruz, sem er með 4,9 milljónir fylgjenda þar, sem og Fox-stjarnan Sean Hannity sem er með sjö milljónir fylgjenda.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×