Viðskipti innlent

Fjögur ráðin á skrifstofu skóla-, íþrótta- og æskulýðsmála

Atli Ísleifsson skrifar
Donata H. Bukowska, Ingvi Hrannar Ómarsson, Óskar H. Níelsson og Örvar Ólafsson.
Donata H. Bukowska, Ingvi Hrannar Ómarsson, Óskar H. Níelsson og Örvar Ólafsson. Menntamálaráðuneytið

Donata H. Bukowska, Ingvi Hrannar Ómarsson, Óskar H. Níelsson og Örvar Ólafsson hafa verið ráðin til starfa hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti á skrifstofu skóla-, íþrótta- og æskulýðsmála.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að þar af séu tvö störf án staðsetningar í nýju skólaþróunarteymi ráðuneytisins.

„Störf án staðsetningar eru liður í aðgerðum stjórnvalda sem miða að því að skapa betri tækifæri til atvinnu um allt land og jafna búsetuskilyrði. Sérfræðingar í skólaþróunarteyminu munu starfa þvert á fagskrifstofur menntamála og er einkum ætlað að fylgja eftir áherslum í nýrri menntastefnu til ársins 2030.

Í störfin hafa verið ráðin Donata H. Bukowska og Ingvi Hrannar Ómarsson. Ingvi mun sinna starfi sínu frá Sauðárkróki og er fyrsti starfsmaður ráðuneytisins sem ráðinn er í starf án staðsetningar. Ingvi hefur starfað sem verkefnastjóri og kennsluráðgjafi í skólaþróun, nýsköpun og upplýsingatækni hjá sveitarfélaginu Skagafirði. Donata hefur starfað sem kennsluráðgjafi í málefnum nemenda með annað móðurmál í grunnskólum Kópavogs. Donata og Ingvi munu bæði hefja störf á næstu mánuðum.

Óskar H. Níelsson mun taka við starfi sérfræðings á sviði menntamála en hann flyst úr starfi frá Menntamálastofnun þar sem hann starfaði sem þróunarstjóri. Óskar hefur hafið störf hjá ráðuneytinu.

Örvar Ólafsson hefur verið ráðinn sérfræðingur á sviði íþróttamála en hann starfaði áður sem verkefnastjóri hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Örvar mun hefja störf hjá ráðuneytinu 1. febrúar næstkomandi,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×