Viðskipti innlent

Twitter kaupir íslenskt fyrirtæki

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, nú starfsmaður Twitter.
Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, nú starfsmaður Twitter. Ueno

Bandaríski samfélagsmiðillinn Twitter hefur keypt íslenska tækni- og hönnunarfyrirtækið Ueno sem stofnað var árið 2014 og hefur vaxið hratt undanfarin ár.

Dantley Davis, yfirhönnuður Twitter, greinir frá þessu á Twitter, þar sem hann segir að Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, muni ganga til liðs við samfélagsmiðilinn ásamt því teymi sem hann hafi sett saman hjá Uneo.

Haraldur Þorleifsson stofnaði fyrirtækið í íbúð sinni í Reykjavík árið 2014. Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum og er það nú með starfstöðvar í San Francisco, New York, Los Angeles og Reykjavík.

Fyrirtækið komst á síðasta ári inn á lista bandaríska tímaritsins Inc. yfir þau fimm þúsund óskráðu fyrirtæki í Bandaríkjunum sem hafa vaxið hvað hraðast á síðustu árum.

Reikna má með að kaupverðið sé talið í milljörðum en á síðasta ári var reiknað með að tekjur ársins myndu nema um 2,5 milljörðum króna.

Félagið hefur þjónustað stóra bandaríska kúnna á borð við Walmart, Visa, Discovery og Twitter, sem nú hefur eignast Ueno. Það hefur einnig verið áberandi á vefmarkaði hér á Íslandi síðustu ár og unnið til fjölda verðlauna. Meðal síðustu verkefna Ueno hér á landi er nýtt útvarpsapp fyrir Bylgjuna, FM957 og X977, sem var gefið út fyrir jól.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×