Viðskipti innlent

Segja við­tökur við hval­firskum grjót­krabba frá­bærar

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Sýnishorn af krabbanum hafa verið send víða um Evrópu.
Sýnishorn af krabbanum hafa verið send víða um Evrópu. Vísir/Egill

Grjótkrabbi sem fannst fyrst í Hvalfirði fyrir um fjórtán árum er ný nytjategund hér á landi. Fyrirtækið Royal Iceland í Reykjanesbæ hefur þróað aðferðir til að vinna afurðir úr krabbanum og nú er konungleg krabbasúpa komin á innlendan markað. Eigendurnir segja viðtökurnar frábærar.

Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu og sölu sjávarfangs og hefur síðustu tíu ár þróað veiðar og vinnslu á grjótkrabba við strendur landsins. Krabbinn er hreinsaður og unninn í sérstökum vélum fyrir framleiðslu á pakkningum af konunglegri krabbasúpu.

„Það er stór hluti af Íslendingum sem er að verða æ nýjungagjarnari og hafa kynnst krabba um víða veröld og krabbi er frábær vara og þeir sem hafa smakkað krabba eru yfirleitt tilbúnir að gera það aftur,“ segir Davíð Freyr Jónsson, einn eigenda Royal Iceland.

Varan er til sölu í nokkrum verslunum.

„Í nettó og Hagkaup og við höfum sent sýnishorn af þessu til Evrópu og höfum fengið mjög góð viðbrögð, við erum því nokkuð bjartsýnir á að þetta sé nokkuð sem gæti möglega gengið,“ segir Davíð Freyr.

Davíð Freyr Jónsson, einn eigenda Royal Iceland.Vísir/Egill

Eigendur Royal Iceland krabbann þetta góða viðbót við það vöruúrval sem fyrirtækið býður uppá en mest er flutt út af hrognum af ýmsum tegundum sem seld eru á Sushi veitingastaði í Evrópu.

„Við erum að selja hrogn fyrir meira en milljarð vörur sem fara beint á Sushi veitingastaði í öllum löndum Evrópu,“ segir Lúðvík Börkur Jónsson, framkvæmdastjóri Royal Iceland.

„Nýjasta varan sem við ætlum að bæta inní þessa Sushidreifingu er veiðin á krabba og framleiðsla á krabbakjöti.“

Lúðvík Börkur Jónsson, framkvæmdastjóri Royal Iceland.Vísir/Egill




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×