Viðskipti innlent

Gerðu ráð fyrir að ríkissjóður gæti tapað þremur milljörðum á Sjóvá

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ríkisstjórn Íslands gerði ráð fyrir að ríkissjóður gæti tapað þremur milljörðum króna ef farið yrði í að bjarga Sjóvá frá gjaldþroti. Í minnisblaði sem Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, kynnti fyrir ríkisstjórn þann 29. júní 2009 er gert grein fyrir þessari áhættu. Þetta minnisblað var á meðal gagna sem kynnt voru í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun, að beiðni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þingmanns.

Í minnisblaðinu kemur fram að sextán milljarða króna þurfi að leggja inn í sjóði Sjóvá til að það verði starfhæft samkvæmt skilyrðum FME. Skilanefnd Glitnis sé reiðubúin til að koma með 2,8 milljarða króna og Íslandsbanki með um 1,5 milljarða. Ríkissjóður þurfi að leggja inn um 12 milljarða króna. Í minnisblaðinu segir að það sé álitamál hvort og hvernig stjórnvöld komi einstökum fyrirtækjum til aðstoðar og tryggi áframhaldandi starfsemi þeirra.

Þar kemur fram að fari tryggingarfélag á Íslandi í greiðsluþrot gæti það haft alvarleg áhrif á endurtryggingasamninga, ekki bara Sjóvár heldur einnig samninga annarra tryggingarfélaga. Þetta gæti þýtt mun hærri iðgjöld sem þurfi að greiða til erlendra endurtryggjenda og þar með hækkunum á iðgjöldum til innlendra aðila. Björgun frá þroti og þar með vörn frá mögulegri hækkun á iðgjöldum til erlendra endurtryggjenda dragi úr greiðsluflæði í erlendri mynt vegna hærri iðgjalda. Þá er bent á að töluverður áhugi sé á að kaupa Sjóvá frá ýmsum aðilum og þessi aðgerði einfaldi söluferli. Þá muni hærra verð fást fyrir félagið ef það er í samfelldum rekstri.

Einnig er bent við hættum af björgun á rekstri Sjóvár og óæskileg fordæmi kunni að skapast. Önnur tryggingafélög gætu farið fram á sömu meðferð, en ekki sé vitað til þess að þau séu í viðlíka vandræðum. Þá sé hugsanlega hægt að líta á þetta sem ríkisvæðingu og þar með sé verið að hafa áhrif á samkeppnisstöðu Sjóvár til hins betra þar sem félagið yrði óbeint að mestu í eigu ríkissjóðs.

Eftir að ríkissjóður, Íslandsbanki og Sklilanefndin lögðu Sjóvá til aukið eigið fé keyptu sjóðir í eigu Stefnis, dótturfélags Arion banka, meirihluta í félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×