Samkeppniseftirlitið fellst ekki á þær tillögur sem Hagar lögðu fram til að liðka fyrir samruna samsteypunnar við Olíuverzlun Íslands og DGV. Þetta var niðurstaða fundar milli fulltrúa Haga og Samkeppniseftirlitsins, en frá þessu er greint í tilkynningu Haga til Kauphallarinnar.
Fram kom í upphafi mánaðarins að Hagar væru reiðubúnir til þess að selja tvær Bónusverslanir, tvær Olís-stöðvar og eina ÓB-stöð svo að koma mætti í veg fyrir samkeppnishindranir, sem Samkeppniseftirlitið hefur talið að leitt gætu af samruna Haga og Olís.
Kaupsamningur vegna kaupa Haga, sem á og rekur meðal annars verslanir Hagkaupa og Bónuss, á öllu hlutafé Olís og fasteignafélagsins DGV var undirritaður í apríl á síðasta ári.
Samkeppniseftirlitið tók kaupin til skoðunar en á ýmsu hefur gengið við skoðun eftirlitsins á kaupunum. Eftirlitið samþykkti ekki kaupin án skilyrða og gengið var til sáttaviðræðna.
Í vor var samrunatilkynningin hins vegar afturkölluð rétt áður en ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins var að vænta. Hagar sendu þá inni nýjar tillögur, sem fólu í sér fyrrnefnda sölu verslana, sem eftirlitið féllst ekki á eins og fram kom í tilkynningunni til Kauphallarinnar.
Stjórnendur Haga hafa þó ekki gefist upp og ætla að reyna að teikna upp nýjar tillögur til að liðka fyrir samrunanum.
